Erlent

Mótmæli halda áfram í Suður-Kóreu degi eftir embættisákæru á hendur forsetans

Anton Egilsson skrifar
Um 200 þúsund mótmælendur voru saman komnir í Seoul í dag til að mótmæla Park Geun-hye, forseta Suður Kóreu, rúmum degi eftir að þingmenn Suður-Kóreska þingsins ákváðu að kæra hana fyrir embættisbrot. Reuters greinir frá.

Greint var frá því í gær að þingmenn á Suður Kóreska þinginu hefði með atkvæðagreiðslu ákveðið að sækja forseta landsins til sakar fyrir spillingu. Forsetinn, Park Geun-hye, sem er fyrsti kvenkyns forseti landsins hefur staðið í mikilli orrahríð síðustu mánuði og hefur hvert hneykslismálið rekið annað.

Forsætisráðherra Suður-Kóreu, Hwang Kyo-ahn, mun taka við embætti hennar þar til nýr forseti verði kosinn. Niðurstaða þingsins er þó ekki endanleg þar sem Hæstiréttur Suður-Kóreu hefur sex mánuði til að staðfesta hana eða hafna henni.

„Við krefjumst þess að Hæstiréttur taki ákvörðun sína af samvisku og sanngirni og fari ekki gegn vilja fólksins”.Segir Jung Kang-ja, einn af aðalskipuleggjendum mótmælanna.

Þetta er sjöundi laugardagurinn í röð sem mótmæli fara fram á götum Seoul borgar og krafist er afsagnar forsetans.


Tengdar fréttir

Forseti Suður-Kóreu ákærð fyrir embættisbrot

Ákæran er studd af 171 af 300 þingmanna Suður-Kóreska þingsins og verður hún lögð til atkvæðagreiðslu næstkomandi föstudag. Til að ákæran nái fram að ganga er þörf á að 29 þingmenn úr flokki forsetans greiði atkvæði með ákærunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×