Erlent

Mótmælendur kveiktu í landbúnaðarráðuneytinu

Atli Ísleifsson skrifar
Eldurinn í húsnæði landbúnaðarráðuneytisins.
Eldurinn í húsnæði landbúnaðarráðuneytisins. Vísir/afp
Mótmælendur í brasilísku höfuðborginni Brasilíu kveiktu eld í húsnæði landbúnaðarráðuneytis landsins og unnu skemmdir á öðrum ráðuneytisbyggingum fyrr í dag.

BBC greinir frá því að yfirvöld í landinu áætli að um 35 þúsund manns hafi mótmælt á götum höfuðborgarinnar í dag.

Viðbúnaður lögreglu hefur verið mikill og hefur herlið verið sérstaklega kallað út til að hafa hemil á mótmælendum sem krefjast afsagnar Michel Temer, forseta landsins, að boðað verði til nýrra kosninga og að hætt verði við fyrirhugaðar efnahagsumbætur stjórnvalda.

Temer hefur verið sakaður um spillingu og verið undir miklum þrýstingi síðustu vikurnar.

Brasilískir fjölmiðlar segja mótmælendur hafa ruðst inn um starfsmannainngang landbúnaðarráðuneytisins, kveikt eld í einu herbergjanna, brotið myndir af fyrrverandi ráðherrum og ögrað lögreglu.

Mótmælin voru friðsamleg til að byrja með en þegar leið á daginn kom til átaka milli lögreglu og mótmælenda og voru fjölmargir mótmælenda handteknir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×