Erlent

Mótmæla Brexit í Lundúnum: „Margir búnir að skipta um skoðun“

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Frá fjöldamótmælum vegna Brexit síðasta sumar.
Frá fjöldamótmælum vegna Brexit síðasta sumar. vísir/getty
Þúsundir mótmælenda söfnuðust saman í dag til þess að lýsa yfir andstöðu sinni við Brexit. Í dag hittust leiðtogar 27 aðildarríkja í Róm til þess að fagna sextugsafmæli Rómarsáttmálans. Þess má geta að Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, var ekki þeirra á meðal. 

Sjá einnig: Leiðtogar ESB ríkja fagna afmæli Rómarsáttmálans

Með Rómarsáttmálanum var lagður grunnur að Evrópusambandi nútímans en sáttmálinn var undirritaður af Belgíu, Frakklandi, Ítalíu, Lúxemborg, Hollandi og Vestur-Þýskalandi.

Tugir þúsunda söfnuðust saman í Lundúnum, vel yfir þúsund í Edinborg og mótmælendur létu meira að segja sjá sig á götum Madrídar.

Theresa May fór ekki til Rómar til þess að fagna afmæli Rómarsáttmálans.Vísir/AFP
David Lammy, þingmaður breska Verkamannaflokksins fullyrti í samtali við The Guardian að það væri leið aftur inn í Evrópusambandið.

„Þegar upp er staðið snýst þetta um fólkið. Við höfum orðið áskynja þess að vilji fólksins sé nú annar, annað hljóð hefur komið í strokkinn [frá því í kosningum] Það eru margir Bretar á móti Brexit og fólk er að skipta um skoðun,“ sagði Lammy.

Theresa May, forsætsráðherra Bretlands, mun tilkynna Evrópusambandinu formlega um útgöngu Bretlands þann 29. mars næstkomandi.

Þar með er 50. grein Lissabon-sáttmálans virkjuð og hefjast í kjölfarið tveggja ára viðræður um úrsögn Breta. Bretland verður því endanlega búið að slíta sig frá sambandinu í mars 2019.

Mótmælendur söfnuðust meðal annars saman fyrir framan þinghúsið í Lundúnum og vottuðu fórnarlömbum voðaverkanna við Westminister virðingu sína með mínútulangri þögn.


Tengdar fréttir

Brexit-ferlið hefst formlega 29. mars

Bresk stjórnvöld munu með þessu virkja 50. grein Lissabon-sáttmálana, en þá munu tveggja ára viðræður hefjast þar sem samið verður um útgöngu Bretlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×