Innlent

Mosi og steinar lifnuðu við þegar sérsveitarmenn handtóku Hlín

Birgir Olgeirsson skrifar
Ljóst er að aðgerð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna fjárkúgunarmálsins var þaulskipulögð.
Ljóst er að aðgerð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna fjárkúgunarmálsins var þaulskipulögð. Vísir
Þegar Hlín Einarsdóttir hugðist teygja sig eftir töskunni sem átti að innihalda fjármuni sem hún og systir hennar Malín Brand ætluðu að kúga út úr forsætisráðherra lifnuðu við mosi og steinar fyrir framan hana og upp risu sérsveitarmenn í felulitabúningum.

Svona lýsir DV atburðarásinni sem átti sér stað daginn sem Hlín Einarsdóttir og systir hennar Malín Brand voru handteknar í Vallahverfinu í Hafnarfirði föstudaginn 29. maí síðastliðinn fyrir að reyna fjárkúga Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.

Hótunarbréfið var stílað á eiginkonu Sigmundar Davíðs og barst fimmtudagskvöldið 28. maí á heimili þeirra hjóna og var lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu gert viðvart í kjölfarið. Sérsveit ríkislögreglustjóra var fengin til að aðstoða við aðgerðina og var ákveðið að fara eftir leiðbeiningum systranna sem birtust í hótunarbréfinu en peningana átti að afhenda sunnan Vallahverfsins, á mótum Ásbrautar og Krýsuvíkurvegar.

Í bréfinu var tekið fram að ef ekki yrði farið eftir leiðbeiningum myndu systurnar koma upplýsingum til fjölmiðla sem kæmu forsætisráðherra illa.

DV segir Hlín og Malín hafa farið saman á bifreið á umræddan stað þar sem þær fylgdust með þegar ráðherrabifreið Sigmundar Davíðs var ekið á vettvangi og bílstjóri steig út með töskuna og skildi hana eftir í hrauninu. DV segir systurnar hafa beðið í tæpan klukkutíma eftir að bifreiðinni var ekið af vettvangi.

Þegar Hlín fór til að ná í töskuna risu hins vegar upp úr hrauninu sérsveitarmenn ríkislögreglustjóra í felulitum og skipuðu Hlín að leggjast í jörðina og var Malín handtekin í kjölfarið. Því er ljóst að sérsveitarmennirnir höfðu beðið í felulitum í dágóðan tíma eftir að fjárkúgararnir létu sjá sig.

Báðar hafa þær játað aðild sína að málinu.


Tengdar fréttir

Sérsveitin kölluð til þótt öryggi Sigmundar væri ekki ógnað

Sú staðreynd að fjárkúgunarkröfu var beint gegn forsætisráðherra og fjölskyldu hans hafði ekki áhrif á umfang aðgerðar lögreglu. "Þetta var tilraun til fjárkúgunar og viðbrögð í samræmi við það,“ segir Friðrik Smári Björgvinsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×