Skoðun

Mikilvægasta skrefið

Pétur Einarsson skrifar
Spurningin um hvort aðskilja beri fjárfestingabankastarfsemi frá viðskiptabankastarfsemi á Íslandi hefur færst ofar á dagskrá þjóðfélagsumræðunnar að undanförnu. Margt kemur til. Nýverið skilaði efnahagsráðherra skýrslu til Alþingis um framtíð íslensks fjármálakerfis. Í skýrslunni er farið yfir kosti og galla aðskilnaðar. Tilgangurinn með þessari grein er að færa frekari rök fyrir því af hverju fjárfestingabankastarfsemi á Íslandi er ekki vel komið fyrir undir sama hatti og innlánastarfsemi viðskiptabanka.

Fjárfestingabankar eru nauðsynlegir hverju þróttugu hagkerfi. Hlutverk þeirra er að þjónusta stærri fyrirtæki á markaði og þá fagfjárfesta sem stunda áhættumestu bankaviðskiptin. Þeir gera fyrirtækjum kleift að fjármagna sig á skulda- og hlutabréfamarkaði og þeir stunda m.a. miðlun og viðskiptavakt á verðbréfamarkaði. Starfsemi fjárfestingabanka er í eðli sínu áhættusamari en hefðbundin viðskiptabankastarfsemi sem felst í að taka við innlánum almennings (með beinni ríkisábyrgð eins og er) og veita útlán gegn veði. Viðskiptabankar hafa ríku hlutverki að gegna við greiðslumiðlun á milli bæði einstaklinga og fyrirtækja. Sterkir viðskiptabankar eru forsenda fyrir frjálsum viðskiptum og skilvirku viðskiptalífi. Því miður er það hliðarverkun af þessu mikilvæga hlutverki viðskiptabankanna að ríkið getur þurft að koma þeim til bjargar á kostnað skattgreiðenda þó að bein ríkisábyrgð sé ekki í gildi, ef þeir hætta að geta staðið við fjárhagslegar skuldbindingar sínar.

Standi hefðbundnir viðskiptabankar líka í fjárfestingabankastarfsemi þá eru þeir líklegir til að vera með stærri efnahagsreikning og dýrara verður að koma þeim til bjargar. Sérstaklega er þessi hætta til staðar á Íslandi þar sem fjármálamarkaðurinn er lítill. Lendi viðskiptabanki í vandræðum kemur það niður á trausti á mörkuðum og leiðir yfirleitt til almennra verðlækkana á eignamörkuðum. Sú þróun getur haft þær afleiðingar að fjárfestingabankastarfsemi viðkomandi banka verði til skamms tíma ekki sjálfbær og auki þannig á vandræði hans. Því til viðbótar setur hún starfsemi annarra fjárfestingabanka í uppnám. Fjárfestingabankastarfsemi getur líka ein og sér, eins og Íslendingar þekkja, verið orsök þess að bankar þurfi á ríkisaðstoð að halda. Þess vegna er betra að hafa fjárfestingabankastarfsemi aðskilda frá almennri innlánastarfsemi með óbeinni ríkisábyrgð.

Bent hefur verið á að nokkur stærðarhagkvæmni geti falist í að reka fjárfestingabankastarfsemi innan hefðbundins viðskiptabanka. Hættan við að reka þessa starfsemi saman er sú að ódýr innlán frá almenningi verði nýtt til að fjármagna áhættusama fjárfestingabankastarfsemi. Ásamt því að fyrirtæki sem er í hefðbundinni bankaþjónustu hjá viðskiptabanka verði boðið að kaupa fjárfestingabankaþjónustu og öfugt. Saman geta þessi atriði leitt til þess að fáir en stórir aðilar sitji einir að því að bjóða fjármálaþjónustu á Íslandi. Samþjöppun af þessu tagi skarast á við markmið um heilbrigða samkeppni á virkum og frjálsum fjármálamarkaði með eðlilega verðmyndun. Til að ná þessum markmiðum er æskilegt að óháðir fjárfestingabankar leiði fyrirtæki og markaðsaðila saman á markaði. Þá er áhættunni dreift og meiri líkur á að hún sé rétt verðlögð. Auk þess er komið í veg fyrir freistnivanda og hagsmunaárekstra, eins og þá sem skapast þegar sami stóri bankinn veitir bæði kaupendum og seljendum ráðgjöf og lánar fyrir viðskiptunum.

Út um allan heim hefur verið umræða um leiðir til þess að draga úr áhættu sem fjármálakerfi skapa. Þegar sú umræða er heimfærð á Ísland verður að hafa í huga hversu lítill og viðkvæmur íslenski fjármálamarkaðurinn er í alþjóðlegum samanburði. Vegna smæðarinnar geta einstaka stórir þátttakendur eða einstakir atburðir haft óeðlilega mikil áhrif á fjármálamarkaðinn og valdið miklu tjóni. Þess vegna þarf að ganga enn lengra hér en annars staðar til þess að stuðla að virkri samkeppni, koma í veg fyrir samþjöppun og tryggja að áhættusömustu bankaviðskiptin séu ekki með óbeinni ríkisábyrgð.

Ljóst má vera af þessari umfjöllun og því sem kemur fram í ágætri skýrslu efnahagsráðsráðherra að breyta þarf lögum og reglum um fjármálamarkaði til að auka skilvirkni þeirra. Bankar sem taka við innlánum frá almenningi þurfa að vera minni og takmarka þarf hvaða áhættu þeir mega taka. Tryggja þarf betur samkeppni og minnka kerfisbundna áhættu í hinu íslenska fjármálakerfi. Mikilvægasta skrefið í þá átt er að skilja að fjárfestingabanka og viðskiptabanka.




Skoðun

Sjá meira


×