Viðskipti innlent

Mikil viðskipti með bréf í VÍS en almenn lækkun á markaði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigrún Ragna Ólafsdóttir hefur látið af störfum sem forstjóri VÍS. Hún var eini forstjóri félags í Kauphöllinni.
Sigrún Ragna Ólafsdóttir hefur látið af störfum sem forstjóri VÍS. Hún var eini forstjóri félags í Kauphöllinni.
Gengi hlutabréfa í flestum félögum í Kauphöllinni hafa lækkað töluvert það sem af er degi. 2,2 prósenta lækkun hefur orðið á gengi Haga en greint var frá því í Fréttablaðinu í morgun að stjórnendur og innherjar hefðu nýlega losað sig við milljónir hluta í fyrirtækinu. 

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins gætir titrings á markaði vegna yfirvofandi komu Costco til landsins. Viðskipti með bréf í Högum nema um 150 milljónum króna það sem af er degi.

Töluverð viðskipti hafa verið með bréf í N1 og Icelandair, uppá 105 milljónir króna í N1 og 176 milljónir króna í Icelandair. Gengi bréfa í N1 hafa lækkað um 1,2 prósent og 1,5 prósent í tilfelli Icelandair.

Mest viðskipti hafa verið með hlutabréf í tryggingafélaginu VÍS það sem af er degi. Viðskiptin nema 227 milljónum króna og hefur gengi í félaginu hækkað um 3,5 prósent. Í morgun bárust þau tíðindi að Sigrún Ragna Ólafsdóttir hefði látið af störfum hjá fyrirtækinu og Jakob Sigurðsson tæki við hennar stöðu.

Sigrún Ragna var eini kvenkyns forstjóri félags í Kauphöllinni. Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 1,6% það sem af er degi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×