Sport

Michael Phelps vann 200 metra fjórsundið á fjórðu leikunum í röð

Óskar Ófeigur Jónsson í Ríó skrifar
Michael Phelps eftir gullsundið í nótt.
Michael Phelps eftir gullsundið í nótt. Vísir/Getty
Bandaíkjamaðurinn Michael Phelps bætti við enn einu gullinu á Ólympíuleikunum í Ríó í nótt þegar hann vann 200 metra fjórsundið.

Þetta var ekki bara sögulegur sigur af því að þetta varð 22. gullverðlaun Michael Phelps á Ólympíuleikum. Hann var nefnilega að vinna 200 metra fjórsundið á fjórðu leikunum í röð.

Hinn 31 árs gamli Michael Phelps sýndi mikla yfirburði í úrslitasundinu en hann vann það með næstum því tveggja sekúndna mun. Kosuke Hagino frá Japan fékk silfur og Shun Wang frá Kína brons.

Michael Phelps hefur nú unnið fern gullverðlaun á þessum leikum í Ríó en tvenn þeirra hafa komið í boðsundum. Hann vann síðan 200 metra flugsundið.

Michael Phelps hefur nú unnið miklu meira en tvöfalt fleiri gullverðlaun á Ólympíuleikum en þau Larisa Latynina, Paavo Nurmi, Mark Spitz og Carl Lewis sem koma öll í öðru sætinu með níu gull hvert.

Michael Phelps hætti eftir Ólympíuleikana í London 2012 en byrjaði aftur og hefur bætt við þetta ótrúlega met sitt.

Michael Phelps á alls 26 verðlaun á Ólympíuleikum því hann á einnig tvö silfur og tvö brons.

Michael Phelps vann sex gull í Aþenu 2004, átta gull í Peking 2008, fjögur gull í London og  nú eru komin fjögur gull í Ríó.

Michael PhelpsVísir/Getty

Tengdar fréttir

Ekkert bendir til þess að hringlaga blettir bæti árangur íþróttafólks

Hringlaga blettir á baki og öxlum nokkurra ólympíukeppenda hafa vakið nokkra athygli á ólympíuleikunum í ár, en þeir orsakast gamalli kínverskri aðferð til að auka blóðflæði líkamans. Læknir segir ekkert benda til þess að aðferðin skili keppendum raunverulegum árangri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×