Sport

Stöð 2 Esport hættir út­sendingum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
esport

Ákveðið hefur verið að hætta útsendingum á línulegu sjónvarpsstöðinni Stöð 2 Esport frá og með 1. maí 2024.

Stöð 2 Esport hóf útsendingar frá keppnum í rafíþróttum þann 20. mars 2020. Síðan þá hefur fjöldi útsendinga litið dagsins ljós, svo sem frá Ljósleiðaradeildinni, Stórmeistaramótinu, Framhaldsskólaleikunum og mörgum öðrum viðburðum. Þá hefur dagskrárgerð verið áberandi, sér í lagi þættir sem hafa verið á vegum GameTíví.

Íþróttadeild Sýnar og Rafíþróttasamband Íslands (RÍSÍ) hafa átt náið og farsælt samstarf um útsendingar Stöðvar 2 Esports á þessum tíma. Þrátt fyrir þessi tímamót mun samstarfið halda áfram þar sem að Vísir verður eins og áður vettvangur útsendinga frá keppnum í rafíþróttum auk þess sem ítarleg umfjöllun um rafíþróttir verður áfram að finna á fréttavef Vísis.

Stöð 2 Esport hefur einnig átt gott samstarf við auglýsendur og ber að þakka fyrir það góða samstarf.

Rétt er að áminna að RÍSÍ mun áfram halda úti metnaðarfullum útsendingum frá rafíþróttum sem verða sem áður fyrr aðgengilegar á Twitch-rás RÍSÍ og á Vísi.

Rafíþróttir á Íslandi hafa tekið stórstigum framförum á undanförnum árum og er íþróttadeild Sýnar stolt af því að hafa tekið þátt í þróun rafíþrótta á Íslandi. Sýn hlakkar til áframhaldandi samstarfs við RÍSÍ um umfjöllun rafíþrótta á Vísi, mest lesna og heimsótta fréttavef landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×