Erlent

Mengað til langframa

Leðjan rauða Flaut yfir heilu þorpin.
fréttablaðið/AP
Leðjan rauða Flaut yfir heilu þorpin. fréttablaðið/AP

Óttast er að eitur­leðjan sem lak úr súrálsverksmiðju í Ungverjalandi geti valdið alvarlegri mengun í Dóná og víðar í nágrenninu.

Lögreglurannsókn er hafin á því hvort lekann megi rekja til glæpsamlegra brota á starfsskyldum stjórnenda verksmiðjunnar eða embættismanna.

Að minnsta kosti fjórir létu lífið en þriggja var enn saknað síð­degis í gær, tveimur dögum eftir að stífluveggur gaf sig með þeim afleiðingum að rauð þunnfljótandi báxítleðja rann í stríðum straumum frá verksmiðjunni.

Um milljón rúmmetrar streymdu yfir nærliggjandi svæði, ruddu bifreiðum af vegum, skemmdu brýr og flæddu yfir götur nokkurra þorpa.

Í gær var ekki enn vitað hvers vegna stífluveggurinn gaf sig. Viktor Orban forsætisráðherra sagði óhappið hafa komið öllum á óvart, því aðeins tvær vikur eru liðnar frá því farið var yfir öryggis­atriði í verksmiðjunni og báxítleðjulóninu. Þá var ekki að sjá að neinu væri ábótavant.

Báxítmengaða leðjan er úrgangur úr súrálsframleiðslu, en súrál er unnið úr báxíti, sem er álrík steintegund.

Enginn leki var lengur úr lóninu í gær, en unnið var að því að styrkja stífluveggina. Verðir eru á vettvangi til að láta vita ef lekur á ný.

Joe Hennon, talsmaður Evrópusambandsins, sagði hættu á því að eiturmengunin breiddist til fleiri landa. Hann sagði Evrópusambandið reiðubúið að veita Ungverjum aðstoð ef á þyrfti að halda.

Mesta hættan er á að ætandi efnin berist út í Dóná, sem rennur til suðurs yfir landamærin til Króatíu, Serbíu, Rúmeníu, Búlgaríu, Úkraínu og Moldóvu áður en hún berst út í Svartahaf.

„Þetta er eitt þriggja verstu umhverfisslysa Evrópu síðustu tuttugu eða þrjátíu árin," segir Herwit Schuster, tals­maður umhverfisverndarsamtakanna Greenpeace.

„Það er greinilegt að 40 ferkílómetra svæði sem að mestu hefur verið notað til landbúnaðar er mengað og ónýtt til lengri tíma," sagði hann.

Í þýska dagblaðinu Die Welt er haft eftir Ungverja, sem ekki er nafngreindur, að þegar svæðið hefur þornað þurfi ekki annað en að mála á það hvítar línur og þá sé þar kominn stærsti tennis­völlur veraldar.

gudsteinn@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×