Enski boltinn

Martraðalíf hjá Mourinho í Manchester

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho.
Jose Mourinho. Vísir/Getty
Það gengur illa þessa dagana hjá knattspyrnustjóranum Jose Mourinho og þá erum við bæði að tala um inn á vellinum og utan hans.

Manchester United hefur ekki unnið deildarleik í október og tapaði 4-0 fyrir Chelsea um síðustu helgi.

Jose Mourinho kvartaði yfir því að hafa verið niðurlægður í leiknum á Brúnni og ensku blöðin voru fljót að breyta viðurnafni hans úr „Hinum sérstaka“ í „Hinn niðurlægða“.

Daily Mirror slær því síðan upp í morgun að ástæða slæms gengis portúgalska stjórans séu þær aðstæður sem hann býr við í Manchester.

Jose Mourinho segir að lífið sitt í Manchester sé martröð. Mourinho hefur búið í svítu á efstu hæð á Lowry hótelinu í borginni. Restin af fjölskyldu hans býr hinsvegar áfram í London.

Hinn 53 ára gamli Jose Mourinho fær fimmtán milljón punda í árslaun eða yfir tvo milljarða íslenskra króna. Peningarnir eru hinsvegar ekki nóg því kappinn saknar fjölskyldunnar og segist vera með hálfgerða innilokunarkennd í fiskabúrinu Manchester.  Hann kvartar meðal annars yfir því að geta ekki farið í göngutúr.

Börnin hans eru 20 ára og 17 ára og eru búin að koma sér vel fyrir í London. Það kemur því ekki til greina að rífa þau upp enda eru vinirnir, skólinn og allt sem skiptir þau mestu máli í höfuðborginni.

„Þau eru á þeim aldri að þau geta ekki elt mig út um allt eins og einu sinni. Í fyrsta sinn er fjölskyldan ekki saman,“ sagði Mourinho við blaðamann Daily Mirror.

„Við reynum að gera það besta úr þessu og vonandi sjáum við fram úr þessu,“ sagði Mourinho. Pressan sem kemur síðan vegna slakrar frammistöðu inn á vellinum er síðan ekki að auðvelda ástandið.

Lærisveinar Jose Mourinho geta hinsvegar létt stjóra sínum lífið með því að vinna nágrannana í Manchester City í enska deildabikarnum í kvöld en leikurinn hefst klukkan 19.00 og verður í beinni á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir

Mourinho: Orð mín voru ætluð Conte en ekki ykkur

Stærsta tap Jose Mourinho í ensku úrvalsdeildinni kom á hans gamla heimavelli í dag. Þá valtaði Chelsea yfir lærisveina Mourinho í Man. Utd, 4-0. Hann hefur aðeins einu sinni tapað stærra á ferlinum en það var 5-0 tap gegn Barcelona árið 2010.

Verri byrjun hjá Mourinho en hjá bæði Moyes og Van Gaal

Jose Mourinho átti að koma Manchester United til bjargar eftir frekar mögur ár undir stjórn David Moyes og Louis van Gaal en eftir stóran skell á Brúnni í gær þá eru örugglega einhverjir stuðningsmenn United farnir að efast.

Sagði Mourinho við Rooney að hann mætti fara?

Framtíð Wayne Rooney hjá Manchester United er í óvissu og enska blaðið Sun slær því upp í morgun að leikmaðurinn hafi fengið leyfi til að fara frá Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×