Golf

Martin Laird leiðir í Kaliforníu

Martin Laird á öðrum hring í gær.
Martin Laird á öðrum hring í gær. AP
Skotinn Martin Laird leiðir eftir tvo hringi á Frys.com mótinu sem fram fer á Silverado vellinum í Kaliforníu en hann er á tíu höggum undir pari. Laird hefur leikið báða hringina á 67 höggum eða fimm undir pari en fast á hæla honum koma þeir Sang-Moon Bae og Zachary Blair á níu höggum undir.

Nokkur þekkt nöfn eru ofarlega á skortöflunni en þar má meðal annars nefna japanska ungstirnið Hideki Matsuyama á sjö undir, Hunter Mahan á sex undir og reynsluboltinn Matt Kuchar á fimm höggum undir pari.

Sigurvegari síðasta árs, Jimmy Walker, er á þremur höggum undir pari en hann lék á 66 höggum í gær og leiðrétti stöðu sína mikið eftir slakan fyrsta hring.

Þá hafa augu margra verið á Jarrod Lyle sem er að leika í sínu fyrsta móti á PGA-mótaröðinni eftir að hafa barist við hvítblæði undanfarin tvö ár en hann náði niðurskurðinum og er á tveimur höggum undir pari.

Þriðji hringur fer fram í kvöld en bein útsending verður á Golfstöðinni frá klukkan 21:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×