Innlent

Maðurinn sem handtekinn var á Kjalarnesi var ógnandi með skotvopn á heimili sínu

Birgir Olgeirsson skrifar
Maðurinn var handtekinn í bifreið sinni á leið frá vettvangi.
Maðurinn var handtekinn í bifreið sinni á leið frá vettvangi. Vísir/Stefán
Maðurinn sem handtekinn var á Kjalarnesi í gærkvöldi eftir að lögreglunni hafði borist tilkynning um vopnalagabrot var á sjötugsaldri. Þetta kemur fram í svörum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við fyrirspurn fréttastofu eftir að lögreglan lokaði Brautarholtsvegi á Kjalarnesi í gærkvöldi.

Naut lögreglan aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra sem var vopnuð vélbyssum. Voru ökumenn á þessu svæði stöðvaðir af lögreglu sem bað þá um að framvísa skilríkjum og gefa upp ástæðu ferðar.

Kristján Ólafur Guðnason, aðstoðaryfirlögregluþjónn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir tilkynningu hafa borist lögreglunni  í gærkvöldi um karlmann á sjötugsaldri sem væri ógnandi í framkomu með skotvopn á heimili sínu ofan við Grundarhverfi á Kjalarnesi. Var tilkynningin metin alvarleg.

Var sérsveit ríkislögreglustjóra kölluð til og Brautarholtsvegi lokað af öryggisástæðum um klukkan hálf níu í gærkvöldið. Um einum og hálfum tíma síðar var maðurinn handtekinn í bifreið sinni á leið frá vettvangi. Hann var óvopnaður og hefur fengið viðeigandi aðstoð að sögn lögreglu. Vegurinn var opnaður í kjölfarið.

Vopn, þar á meðal skotvopn, voru í framhaldinu haldlögð af lögreglu á heimili hans.

Aðgerðum lögreglu lauk um klukkan ellefu í gærkvöldi. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×