Viðskipti innlent

Lýður og Sigurður sýknaðir

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lýður Guðmundsson og Sigurður Valtýsson.
Lýður Guðmundsson og Sigurður Valtýsson. Vísir/GVA
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag Lýð Guðmundsson og Sigurð Valtýsson af ákæru sérstaks saksóknara um umboðssvik og brot gegn hlutafélagalögum sem stjórnarmenn í Vátryggingafélagi Íslands (VÍS).

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir í samtali við Vísi að embættið muni nú fara yfir niðurstöður nýuppkveðins dóms. Það sé í höndum ríkissaksóknara að ákveða hvort málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar.

Milljóna króna lán

Ákæran snerist að þremur atriðum. Í fyrsta lagi 59 milljóna króna lán sem Lýður, fyrir hönd VÍS, veitti Sigurði sjálfum í febrúar 2009 og var ítrekað framlengt og í öðru lagi tugmilljóna lán Sigurðar, fyrir hönd VÍS, til Korks ehf., félags í eigu Lýðs og Ágústs bróður hans, sem var framlengt og hækkað sex sinnum.

Þessar tvær lánveitingar voru taldar varða við 104. grein hlutafélagalaga þar sem meðal annars er lagt bann við því að hlutafélag láni stjórnarmönnum sínum fé. Hámarksrefsing fyrir slíkt brot er tveggja ára fangelsi. Þessi lán eru hins vegar ekki talin varða við umboðssvikaákvæði hegningarlaga, meðal annars af því að lánin voru greidd upp og af þeim varð hvorki tjón né teljandi áhætta á því.

Dómurinn komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að ekki væri næg stoð í gögnum málsins til að nægja gegn neitun ákærða og framburði vitnis. Ákæruvaldið hefði ekki sannað sekt Lýðs við lánsveitinguna í fyrri liðnum og sömuleiðis ekki sýnt fram á sekt Sigurðar í öðrum lið ákærunnar.

Meint umboðssvik

Þriðja atriðið í ákærunni var hins vegar ætluð umboðssvik Lýðs þegar VÍS keypti 40 prósenta hlut í félaginu Reykjanesbyggð ehf. af Kristjáni Gunnari Ríkharðssyni, svila Sigurðar, fyrir 150 milljónir. Umboðssvik varða allt að tveggja ára fangelsi og sex árum ef sakir teljast mjög miklar.

Dómurinn taldi sömuleiðis sérstakan saksóknara ekki hafa sannað sekt Lýðs þar sem gögn í málinu hefðu ekki nægilega stoð til að nægja gegn neitun Lýðs og framburði vitna fyrir dómnum.

Sérstakur saksóknari réðst í húsleit hjá VÍS vegna rannsóknar á málefnum félagsins í maí 2011 og færði fjóra til yfirheyrslu.

Rannsóknin á VÍS var í upphafi mun umfangsmeiri og snerist meðal annars um samtals 41 lán sem VÍS veitti Existu árið 2008. Þau námu samtals 84,4 milljörðum, þótt útistandandi kröfur VÍS á Existu hafi aldrei verið hærri en sex milljarðar í einu. Þá voru lán til fleiri einstaklinga og félaga til rannsóknar. Ekki hefur verið ákært fyrir þessar lánveitingar.


Tengdar fréttir

Lýður og Sigurður mættu ekki

Lýður Guðmundsson og Sigurður Valtýsson munu ekki koma til landsins og taka afstöðu til ákæru sérstaks saksóknara fyrr en í síðari hluta nóvember.

Sérstakur ákærir Lýð og Sigurð í VÍS-málinu

Alls eru á þriðja hundrað milljóna viðskipti VÍS talin saknæm í ákæru sérstaks saksóknara gegn Lýði Guðmundssyni og Sigurði Valtýssyni. Þrír sem höfðu réttarstöðu sakbornings á fyrri stigum eru ekki ákærðir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×