Lífið

Lögfræðingur Steven Avery segist hafa ný sönnunargögn undir höndum

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Steven Avery hefur verið á bak við lás og slá í tíu ár og margir trúa því að hann sé saklaus.
Steven Avery hefur verið á bak við lás og slá í tíu ár og margir trúa því að hann sé saklaus. Vísir
Heimildamyndaþættirnir Making A Murderer slógu í gegn á Netflix en þar er farið vandlega yfir mál þar sem Steven Avery var dæmdur fyrir morðið á Teresu Halbach. Einnig var frændi Avery, unglingspilturinn Brendan Dassey, dæmdur fyrir að hafa aðstoðað Avery við morðið.

Margir þeirra sem hafa séð myndina hafa sannfærst um sakleysi þeirra beggja og var hitinn í kringum myndina slíkur að 500 þúsund undirskriftum var skilað til Barack Obama Bandaríkjaforseta þar sem hann var hvattur til þess að afturkalla dómana yfir þeim frændum. Obama svaraði að hann hefði ekkert vald til þess að náða þá sem hafa verið dæmdir fyrir morð.

Nú heldur nýr lögfræðingur Avery því fram að nýjar sannanir séu komnar upp í málinu sem gætu orðið til þess að réttað yrði aftur yfir honum. Sú heitir Kathleen Zellner og hefur nú þegar tekist að sýkna 17 menn sem áður hafa verið dæmdir fyrir glæpi af rangri sök.

Mynd af lyklinum umtalaða sem lögfræðingur Avery hefur sent í frekari rannsókn.Vísir
Eru leifar af hreinsiefni á lyklinum?

Zellner heldur því fram að hún hafi undir höndunum ný sönnunargögn sem ættu að duga til þess að mál Avery verði enduropnað og réttað yrði yfir honum að nýju. Hún heldur því fram að leysingarefni hafi verið notað til þess að hreinsa bíllykil fórnarlambsins áður en DNA af Avery hafi verið komið fyrir á honum. Eins og þeir muna sem hafa séð heimildaþættina þá fannst bíllykill hennar skyndilega á svefnherbergisgólfi Avery eftir að lögreglan hafði leitað þar í tvo daga.

Finnist leifar af leysiefninu á lyklinum segir Zellner að þá séu komnar næg vísindaleg rök til þess að fá málið opnað á ný. Einnig segist hún vera að rannsaka blóðið sem fannst í bíl fórnarlambsins með tilliti til aldurs sýnissins en í heimildarmyndinni er það gefið í skyn að blóðið hafi komið úr eldra blóðsýni sem var í vörslu lögreglunnar.

Það gæti því vel farið svo að máli Steven Avery sé ekki lokið en hann hefur nú verið á bak við lás og slá í um tíu ár.

Hér fyrir neðan má sjá stiklu úr heimildarþáttaröðinni vinsælu. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×