Enski boltinn

Liverpool-stuðningsmenn sjá Bill Shankly í Klopp

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bill Shankly og Jürgen Klopp
Bill Shankly og Jürgen Klopp Vísir/Getty
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, er búinn að koma liðinu í úrslitaleik Evrópudeildarinnar á sínu fyrsta tímabili á Anfield sem þýðir að liðið er aðeins einum sigri frá sæti í Meistaradeildinni 2016-17.

Stuðningsmenn Liverpool eru að sjálfsögðu himinlifandi með þýska stjórann sem hefur gjörsamlega gerbreytt öllu andrúmslofti á Anfield síðan að hann tók við liðinu í október í fyrra.

Liverpool komst í úrslitaleikinn eftir 3-0 sigur á spænska liðinu í seinni undanúrslitaleik liðsins í gær en áður hafði liði slegið út stórliðin Borussia Dortmund og Manchester United.

Klopp hefur fengið mikið lof frá stuðningsmönnum Liverpool og kannski það veigamesta er að nú eru menn farnir að líkja honum við goðsögnina Bill Shankly.

Það var nefnilega Bill Shankly sem tók við Liverpool í ensku b-deildinni og gerði liðið að stórveldi í Englandi og í Evrópu.

Bill Shankly tók við Liverpool árið 1959 og stýrði því til ársins 1974. Liðið vann enska meistaratitilinn þrisvar sinnum og enska bikarinn tvisvar sinnum undir hans stjórn. Liverpool varð einnig Evrópumeistari í fyrsta sinn undir hans stjórn þegar liðið vann UEFA-bikarinn 1973.

Bill Shankly hætti óvænt með Liverpool eftir að hann gerði liðið að enskum meisturum 1974 en við tók Bob Paisley sem hélt sigurgöngunni áfram á áttunda og níunda áratugnum.

Það er ekki aðeins stuðningsmenn Liverpool sem sjá Bill Shankly í Klopp því knattspyrnusérfræðingurinn og fyrrum leikmaður Liverpool,  Mark Lawrenson, segir að Jürgen Klopp hafi sterka áru í kringum sig líkt og Bill Shankly hafði.


Tengdar fréttir

Liverpool upp að hlið Bayern Münhcen

Liverpool tryggði sér í kvöld sæti í tólfta úrslitaleik félagsins í Evrópukeppni frá upphafi en aðeins fjögur evrópsk félög hafa spilað oftar til úrslita í Evrópu.

Klopp: Þvílík frammistaða

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var hátt uppi eftir að leikmenn hans unnu 3-0 sigur á Villarreal á Anfield í kvöld og tryggðu liðinu sæti í úrslitaleik Evrópudeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×