Erlent

Líkur á að fleiri finnist á lífi hverfandi

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/ap
Tuttugu og átta hefur verið bjargað í Miðjarðarhafi í dag eftir að bát hvolfdi skömmu eftir miðnætti. Tuttugu og fjögur lík hafa fundist en óttast er um líf hátt í sjö hundruð flóttamanna. Líkur á að mikið fleiri finnist á lífi eru taldar hverfandi.

Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, segir að ekki sé hægt að staðfesta fjölda dauðsfalla að svo stöddu. Ljóst væru þó að hann væri gríðarlegur og líklega væri um eitt versta slys í sögunni að ræða. Hefur hann nú óskað eftir fundi með Evrópusambandinu til að ræða málefni flóttamanna.

Yfir tuttugu skip og þrjár þyrlur taka þátt í björguninni. Varðskipið Týr tekur þó ekki þátt í björguninni en það hefur tekið þátt í fjölmörgum björgunaraðgerðum á svipuðum slóðum að undanförnu. Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni er varðskipið í inniveru sem skipulögð er af Frontex. Því hafi ekki verið óskað eftir aðstoð Týs.

Um 13.500 flóttamönnum var bjargað á einungis einni viku, eða frá 10. til 17.apríl. Aðstæður til siglinga eru nú góðar og því margir sem leggja upp í ferðalag í þeirri von um að öðlast betra líf. Bátarnir eru þó oftar en ekki illa búnir og því ekki allir sem lifa ferðalagið af. 3.500 létu lífið á síðasta ári. Á þessu ári, frá ársbyrjun til 15. apríl týndu alls níu hundruð lífi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×