Innlent

Líkamsárásin í Grundarfirði: Framburður sakborninga samræmist ekki upptöku

Samúel Karl Ólason skrifar
Höfnin í Grundarfirði.
Höfnin í Grundarfirði.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms Vesturlands um að annar sakborninga í líkamsárás í Grundarfirði skuli sæta gæsluvarðhaldi. Sakborningarnir eru tveir en annar þeirra hafði kært úrskurð héraðsdóms um gæsluvarðhald.

Úrskurð Hæstaréttar, sem og úrskurð Héraðsdóms Vesturlands, má sjá á heimsíðu Hæstaréttar.

Meðal dómsgagna er myndbandsupptaka af líkamsárásinni sem átti sér stað á bryggjunni í Grundarfirði aðfaranótt 17. júlí.

Þar sést að mennirnir tveir, sem voru áhafnarmeðlimir skips sem var við löndun í Grundarfirði, hafi veist að öðrum manni. Sá var fluttur á sjúkrahús með þyrlu Landhelgisgæslunnar og hefur verið haldið sofandi síðan.

Í niðurstöðu Hæstaréttar ekki greint frá því hver átti upptökin, en þó segir að ekki sé samræmi á milli upptökunnar og framburðar sakborninganna. Þar segir að sá sem skaut málinu til Hæstaréttar kunni að torvelda rannsóknina verði hann látinn laus úr einangrun.

Stóð klofvega yfir honum

Í úrskurði héraðsdóms segir að lögreglan hafi fengið tilkynningu um meðvitundarlausan mann og að gerendur hafi farið aftur um borð í skipið.

Vitni að árásinni segir þann slasaða hafa verið að kítast við tvo menn á hafnarsvæðinu. Þeir hafi byrjað að slást og féll maðurinn með höfuðið í malbikið eftir hnefahögg. Vitnið sagðist ekki hafa séð hvor sakborninganna hafi slegið manninn fyrst, en líklega hafi hann rotast við fallið í malbikið.

Hann segir annan sakborninganna hafa stigið klofvega yfir hann og slegið hann með krepptum hnefa í andlitið einu sinni eða tvisvar. Við það hafi höfuð hans skollið í malbikið.

Vitnið ók til þeirra á lyftara og segir sakborningana hafa „eitthvað farið að rífa sig“. Þó hafi annar áhafnarmeðlimur komið frá bátnum og hinir tveir farið aftur um borð.

Í skýrslutöku hjá lögreglu sagði einn sakborninga að hann héldi að gafflar lyftarans hafi farið í höfuð mannsins. Hann vildi ekkert segja um þátt hins sakbornings í atburðarásinni, því hann hefði verið upptekinn við að verja sig.

Hann sagði myndbandsupptökuna ekki sýna fram á neitt annað en það sem hann hafi haldið fram.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×