Erlent

Lenda geimfari á Mars á morgun

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/EPA
Geimferðastofnun Evrópu, ESA, vinnur nú að því að lenda geimfari á yfirborði plánetunnar Mars á morgun. Geimfarið Schiaparelli sleit sig frá móðurskipinu á sunnudaginn og er því ætlað að sýna fram á notkunargildi lendingartækninnar sem notast er við.

Það mun einnig sinna því rannsóknarverkefni að kanna rykstorma á yfirborði Mars eins og lengi og rafhlöður farsins endast. Talið er að það verði í tvo til fjóra mars-daga, sem eru um 40 mínútum lengri en dagarnir hér á Jörðinni.

Um mjög mikilvægt skref fyrir ESA er að ræða og er það liður í öðrum geimferðum til Mars í framtíðinni.

Móðurskip Schiaparelli, ExoMars Trace Gas Orbiter eða TGO, mun verða notað til að rannsaka andrúmsloft Mars úr sporbraut.

Geimvísindastofnun Bandaríkjanna, NASA, hefur lent sjö förum á Mars, en ESA engu. Geimvísindastofnun Rússlands, Roscosmos, kemur einnig að Schiaparelli verkefninu.

Þá stendur til að lenda vélmenni á Mars árið 2020.

Vélmennið Opportunity frá NASA er í um 15 kílómetra fjarlægð frá áætluðum lendingarstað Schiaparelli og stendur til að nota vélmennið til að ná myndum af lendingunni á morgun.

Hægt verður að fylgjast með útsendingu frá ESA sem hefst klukkan tuttugu mínútur í tólf á morgun. Einnig er hægt að fylgjast með textalýsingu ESA.

Reiknað er með því að lendingarferli Schiaparelli muni hefjast um klukkan tuttugu mínútur í eitt. Það tekur öll skilaboð níu mínútur og 48 sekúndur að berast frá Mars til Jarðarinnar.

Leiðin sem Schiaparelli mun fara á leið sinni á yfirborð Mars. Tölvuteiknað myndband frá ESA af lendingarferli Schiaparelli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×