Viðskipti innlent

Lee Buchheit í teymi um afnám hafta

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/stefán/valli
Tekin hefur verið ákvörðun um að ráða aðila í sérstaka framkvæmdastjórn um afnám fjármagnshafta og verður hún skipuð fjórum sérfræðingum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.

Framkvæmdastjórnin verður skipuð  Benedikt Gíslasyni, ráðgjafa- og aðstoðarmanni fjármála- og efnahagsráðherra, Frey Hermannssyni forstöðumanni fjárstýringar Seðlabanka Íslands, Eiríki Svavarssyni hæstaréttarlögmanni og Glenn Victor Kim fjármálaráðgjafa hjá LJ Capital sem jafnframt leiðir verkefnið.

Þá hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið samið við lögmannsstofuna Cleary Gottlieb Steen & Hamilton LLP og ráðgjafafyrirtækið White Oak Advisory LLP um að vinna með íslenskum stjórnvöldum að losun fjármagnshafta. Hjá Cleary Gottlieb Steen & Hamilton starfar lögmaðurinn Lee Buchheit sem mun stýra vinnu lögmannsstofunnar í þessu verkefni.

Lee Buchheit.
Anne Krueger prófessor í hagfræði við John Hopkins University og fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins mun veita íslenskum stjórnvöldum ráðgjöf, einkum er snýr að þjóðhagslegum skilyrðum við losun hafta og veitingu undanþága að því er segir í tilkynningunni. Jafnframt mun fjárfestingabankinn JP Morgan liðsinna stjórnvöldum vegna lánshæfismats Íslands.

Í tilkynningunni segir að ráðning þessara erlendu ráðgjafa sé liður í vinnu stjórnvalda við að létta fjármagnshöfum af íslensku efnahagslífi. Þá sé unnið að heildstæðri lausn sem taki á öllum þáttum fjármagnshafta, þar á meðal uppgjör slitabúanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×