Viðskipti innlent

Laun Pólverjanna 14% hærri

Haraldur Guðmundsson skrifar
Pólskir félagsmenn Eflingar sem störfuðu í byggingariðnaði fengu að meðaltali 376 þúsund krónur í mánaðarlaun.
Pólskir félagsmenn Eflingar sem störfuðu í byggingariðnaði fengu að meðaltali 376 þúsund krónur í mánaðarlaun. Vísir/Vilhelm
Heildarlaun pólskra félagsmanna stéttarfélagsins Eflingar voru að meðaltali um fjórtán prósentum hærri en laun íslenskra félagsmanna í september síðastliðnum.

Þetta kemur fram í nýrri samantekt Eflingar. Hún inniheldur ekki upplýsingar um vinnutímann á bak við launin enda hvergi hægt að nálgast tölur um fjölda vinnustunda eftir þjóðerni. Samkvæmt niðurstöðum norrænnar samanburðarrannsóknar sem rannsóknarmiðstöðin MIRRA vann að og kynnti fyrr í þessum mánuði, eru Pólverjar aðeins með 57 prósent af meðallaunum á íslenskum vinnumarkaði.

„Við ekki bara gagnrýnum, við vefengjum að staðan sé þannig. Rannsókn MIRRU olli töluverðum heilabrotum og niðurstaðan er á skjön við okkar reynslu og við teljum að þarna sé einfaldlega verið að mæla ranga hluti. Hins vegar vantar inn í okkar samantekt tölur um vinnutíma en mér finnst tölurnar benda til þess að pólskir félagsmenn okkar vinni lengri vinnudaga,“ segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar.

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, segir það tilfinningu starfsmanna ASÍ að Pólverjar, bæði karlar og konur, séu almennt á lakari launum en Íslendingar í sambærilegum störfum.

„Sú tilfinning byggir ekki á neinum tölfræðilegum upplýsingum,“ segir Halldór en hann telur launamuninn sem var dreginn upp hjá MIRRU vera langt umfram þeirra mat. „Þegar við sáum þessa niðurstöðu MIRRU þá passaði hún engan veginn við það sem við töldum okkur vita best. Við skoðuðum þá tölfræði og aðferðafræði sem niðurstaðan byggir á og þá kom í ljós að hún byggði annars vegar á viðtalskönnun við fimm hundruð Pólverja sem sögðu hvað þeir töldu sig vera með í laun. Hins vegar voru þær upplýsingar bornar saman við tölur Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, um meðallaun á íslenskum vinnumarkaði, og þar er eingöngu að finna tölur um meðallaun óháð starfs- eða atvinnugreinum.“

Dr. Hallfríður Þórarinsdóttir, mannfræðingur og forstöðumaður MIRRU, segir gagnrýni á aðferðafræði rannsóknarinnar fela í sér ákveðna vantrú.

„Ég spyr mig hvort launþegahreyfingin sé að draga í efa það sem fólkið segir sjálft um launin sín. Mér finnst þetta líka sýna að það verður að rannsaka frekar þessi launakjör og þá sérstaklega út frá vinnustundum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×