Innlent

Læknar settir í gámaskrifstofur

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Gámarnir 18 við Landspítalann við Hringbraut voru reistir í lok árs 2014. Jafn mörgum verður komið fyrir í Fossvogi.
Gámarnir 18 við Landspítalann við Hringbraut voru reistir í lok árs 2014. Jafn mörgum verður komið fyrir í Fossvogi. VÍSIR/GVA
Ríkiskaup hafa fyrir hönd Landspítala óskað eftir tilboðum í kaup og uppsetningu á átján gámum á lóð Landspítala í Fossvogi, eða jafn mörgum gámum og komið var fyrir á lóð spítalans við Hringbraut fyrir rúmu ári.

Að sögn Ingólfs Þórissonar, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Landspítala, er stefnt að því að gámarnir í Fossvogi verði teknir í notkun í sumarlok. Þeir verða nýttir undir skrifstofur starfsmanna.

„Starfsemin á spítalanum er að vaxa það mikið að við þurfum að rýma. Það á til dæmis að bæta við nýju sneiðmyndatæki. Það er eitt slíkt tæki í Fossvogi en það er of lítið. Bæta þarf við bráðaskurðstofu auk þess sem stækka þarf vöktun við skurðstofur. Það er verið að bæta aðstöðuna inni á spítalanum vegna bráðnauðsynlegrar þjónustu við sjúklingana,“ greinir Ingólfur frá.

Átján gámar sem komið var fyrir á lóð Landspítalans við Hringbraut í desember 2014 eru enn í notkun.

„Það eru að mestu leyti læknar með skrifstofur í þeim gámum og það má gera ráð fyrir að þannig verði það einnig við spítalann í Fossvogi,“ segir Ingólfur.

Að sögn Ingólfs kunna menn vel við gámaskrifstofurnar. „Ég hef að minnsta kosti ekki heyrt neitt annað,“ segir hann.

Um 500 fermetra rými er í gámunum við Hringbraut. „Gámarnir í Fossvogi verða af sömu stærð en það getur verið að þeir verði eitthvað öðruvísi. Það fer eftir því hvað kemur út úr útboðinu,” segir Ingólfur.

Líklegt er að gámarnir átján í Fossvogi verði í notkun þar til flutt verður í nýjan spítala, að því er Ingólfur segir.

Erfiðara sé að segja til um hvenær skrifstofur verði fluttar úr gámunum við Hringbraut.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 22. mars




Fleiri fréttir

Sjá meira


×