Menning

Kvikmyndafyrirtæki Simons Cowell tryggir sér skáldsögu Ólafs Jóhanns

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Ólafur Jóhann Ólafsson.
Ólafur Jóhann Ólafsson. mynd/pétur már ólafsson
„Það gerist núna fyrir skömmu að það er hringt í umboðsmanninn minn frá Syco Entertainment og þau sögðu henni að staðið hafi til í nokkurn tíma að búa til sjónvarpsþátt sem ætti að gerast í Hearst kastala við Kyrrahafið í Kaliforníu. Þá hefðu þau lesið Höll minninganna og fundið það efni sem þau hefðu verið að leita að og vildu fá að kaupa réttinn á henni til að nota sem grunninn í sjónvarpsseríu,“ segir rithöfundurinn Ólafur Jóhann Ólafsson glaður í bragði.

Skáldsagan Höll minningana kom út hér á landi árið 2001 og segir söguna af Kristjáni Benedektssyni sem hverfur eina nótt af heimili sínu í Reykjavík og endar sem einkaþjónn blaðakóngsins Hearst í kastala hans. Sagan á sér stað á fyrri hluta síðustu aldar en kastalinn og blaðakóngurinn eiga sér báðir stoð í raunveruleikanum að auki segir Ólafur að persóna Kristjáns sé byggð á Íslenskum manni.

Fyrirtækið sem um ræðir er samstarfsverkefni fjölmiðlamannsins Simon Cowell sem flestir þekkja úr raunveruleikaþáttunum The X Factor og Sony Entertainment. Fyrirtækið hefur verið stórtækt í sjónvarpi meðal annars má nefna fyrrnefnda X Factor þætti og einnig framleiddi það heimildarmynd um strákabandið heimsfræga One Direction. En bandið rekur einmitt uppuna sinn til The X Factor. Nú er stefnan sett á að færa sig yfir í leikið sjónvarpsefni.

Ólafur segir það hafa komið sem þrumu úr heiðskýru lofti þegar fyrirtækið setti sig í samband og lýsti yfir áhuga á skáldsögu hans, sér í lagi þar sem allnokkur ár eru síðan bókin kom út. „Að þær skuli eiga svona framhaldslíf þessar bækur þegar þær eru löngu komnar út úr hausnum á manni sjálfum er gaman.“

Samningarnir hafa nú verið undirritaðir og þróunarvinna við þættina hafin samkvæmt Ólafi. „Þeir eru að kortleggja þetta allt saman og fá fólk að þessu sem þeir vilja vinna með í þessu. Handritshöfunda og annað sem myndu þá setja þetta saman,“ segir hann og bætir hóvær við. „Þetta er nú svolítil vegferð og maður sér bara hvað kemur út úr þessu, þetta getur farið á alla vegu.“

Ólafur tekur þó fyrir að hann muni kom að handritaskrifum þáttana en hann muni sjálfsagt vera handritshöfundum og framleiðendum innan handar ef svo komi til „Þeir vilja geta leitað til mín og fengið mig til skrafs og ráðagerða. Kannski fá þau mig til að hugsa þetta eitthvða með sér en ég ætla ekki að skrifa neitt af þessu, það verður í höndum þess fólks sem þau ráða í verkefnið.“

Ólafur er búsettur í New York og sinnir auk ritstörfum stöðu aðstoðarforstjóra fjölmiðlasamsteypunnar Time Warner. Hann lætur ekki sitt eftir liggja í jólabókaflóðinu og sendi frá sér bókina Endurkoman á dögunum. „Það eru fjögur ár síðan síðasta bók kom út þannig það var líklega kominn tími á mig,“ segir hann glaðbeittur og bætir dullarfullur við að lokum: „Aðalpersónan í bókinni er kannski ekki alveg óskyld einkaþjóninum Kristjáni Benediktssyni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×