Viðskipti innlent

Kröfu verj­enda í Vafningsmálinu hafnað

Kröfu verjenda Lárusar Welding og Guðmundar Hjaltasonar, sem ákærðir eru í Vafningsmálinu, um að greinargerð embættis sérstaks saksóknara um innanhúsrannsókn á rannsakendum málsins verði ekki tekin gild, var hafnað í Héraðsdómi Reykjavíkur. Símon Sigvaldason dómari kvað upp úrskurð þess efnis klukkan 14:00 í dag.

Hólmsteinn Gauti Sigurðsson, saksóknari, lagði fram greinargerð við fyrirtöku frávísunarhluta málsins í morgun, þar sem meðal annars kom fram að innanhúsrannsókn embættis sérstaks saksóknara bendi til þess að þrátt fyrir að rannsakendurnir Guðmundur Haukur Gunnarsson og Jón Óttar Ólafsson, sem kærðir hafa verið til ríkissaksóknara vegna meintra brota á þagnarskyldu í starfi sínu, hafi unnið við rannsókn málsins þá hafi það ekki grafið undan málinu. Verjendurnir, Þórður Bogason og Óttar Pálsson, mótmæltu þessu og töldu ekki að greinargerðin ætti erindi í málið. Guðmundur Haukur og Jón Óttar voru kærðir vegna gruns um að þeir hefðu unnið fyrir þrotabú Milestone samhliða störfum fyrir sérstakan saksóknara en fram hefur komið að þeir þáðu meðal annars 30 milljónir króna vegna starfa sinn fyrir þrotabúið.

Málflutningur vegna kröfu ákærðu um frávísun fer fram í ágúst, en að sögn Þórðar Bogasonar, lögmanns Guðmundar, eru yfirvafandi líkur á því að úrskurðurinn verði kærður til Hæstaréttar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×