Erlent

Krafinn afsagnar vegna ummæla sinna um skuldsettar Evrópuþjóðir

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Jeroen Dijsselbloem, formaður fjármálaráðherranefndar evruþjóðanna og fjármálaráðherra Hollands.
Jeroen Dijsselbloem, formaður fjármálaráðherranefndar evruþjóðanna og fjármálaráðherra Hollands. Vísir/AFP
Jeroen Dijsselbloem, formaður fjármálaráðherranefndar evruþjóðanna og sitjandi fjármálaráðherra Hollands, á nú undir högg að sækja vegna ummæla sinna um ríki í Suður-Evrópu. Þetta kemur fram á vef BBC.

„Ég get ekki eytt öllu mínu fé í áfengi og konur og farið svo og óskað eftir stuðningi,“ sagði Dijsselbloem í umdeildu viðtali.

Ummælin eru túlkuð sem gagnrýni á stöðu skuldsettra ríkja í Suður-Evrópu. Forsætisráðherra Portúgal, Antonio Costa, segir ummælin bera merki um kynþáttafordóma og vill að Dijsselbloem segi af sér. Ernest Urtasun, spænskur Evrópuþingmaður, segir ummælin þrungin „algjörlega ómarktækum staðalímyndum sem loða við suðræn lönd“.

Dijsselbloum segir ummæli sín ekki hafa beinst sérstaklega að einu ríki heldur hafi hann verið að leggja áherslu á „þær meginreglur sem styrkja eigi efnahagsleg sambönd“.

Áætlað er að fjögurra ára kjörtímabili hans sem formaður fjármálaráðherranefndar evruþjóðanna ljúki í janúar 2018. Þá mun hann heldur ekki starfa mikið lengur sem fjármálaráðherra Hollands en á næstu vikum verður ný samsteypustjórn samþykkt í Hollandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×