Innlent

Kirkjuheimsóknir leyfilegar en trúarinnræting ekki

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Kjartan og Sóley tókust á í gærkvöldi.
Kjartan og Sóley tókust á í gærkvöldi. Vísir/Vilhelm
Rúmlega tveggja klukkustunda umræður voru í gær í borgarstjórn um samskipti leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila Reykjavíkurborgar við trúar- og lífsskoðunarfélög. Umræðan fór fram að beiðni Sjálfstæðismanna, en eins og Vísir sagði frá í vikunni telur oddviti flokksins að ekki eigi að takmarka frelsi foreldra til að senda börn sín í kirkju með skólum.

Þjóðkirkja í stjórnarskrá

Tilefni umræðunnar eru ummæli Lífar Magneudóttur, formanns mannréttindaráðs Reykjavíkur, um að fyrirhuguð heimsókn nemenda í Langholtsskóla í Langholtskirkju væri ekki í samræmi við samskiptareglur borgarinnar við trúfélög.

Sveinbjörg vísaði í stjórnarskrá Íslands.Vísir/Arnþór
Fulltrúi Framsóknarflokksins benti á þjóðkirkjuákvæði væri „Okkur ber því að vernda íslensku þjóðkirkjuna, hvort sem einstaka borgarfulltrúum líkar það betur eða verr,“ sagði Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og bætti við að íslenska þjóðkirkjan væri varin í stjórnarskránni. 

„Það samræmist því ekki þessu boði stjórnarskránna ef það á að útiloka opinberar stofnanir, þar með talið grunnskóla og leikskóla, frá því að eiga samskipti við þjóðkirkjuna,“ sagði Sveinbjörg.

Jólasveinninn og sorpflokkun

Kjartan Magnússon, fulltrúi Sjálfstæðisflokks, sagðist telja skýrt að heimsóknir í kirkjur væru innan þess ramma sem settur er með reglunum. „Ég hef alls ekki skilið það þannig að það væri eitthvað trúboð og innræting sem ætti sér stað þar, heldur bara mjög hátíðleg stund,“ sagði hann.

Kjartan sagði að í grunnskólum væru innprentaðar lífsskoðanir í börn sem ekki endilega allir væru sammála um. Tók hann dæmi um sorpflokkun, sem umdeilt væri hversu langt ætti að ganga, lýðræði, sem ekki endilega allir væru sammála um, jafnrétti, sem Kjartan taldi ekki alla vera sammála um þó að borgarstjórn væri það, auk jólasveina. 

Nemendur Langholtsskóla munu fara í kirkju en ekki fá hugvekju.Vísir/Anton
„Er það ekki ákveðin innræting í sjálfum sér að halda því fram að jólasveinninn sé til eða sé ekki til?“ spurði hann.



Reglurnar skýrar

Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi VG, sagði að enginn borgarfulltrúar meirihlutans hefði haldið því fram að heimsóknir í kirkjur væru bannaðar. „Aftur á móti setti formaður mannréttindaráðs réttilega spurningamerki við það hvort hugvekja í kirkju samræmdist þessum reglum,“ sagði hún. 

Benti hún á að vegna þessa hefðu stjórnendur Langholtsskóla hætt við þann hluta heimsóknarinnar þar sem átti að vera með hugvekju. „Það stendur tiltölulega skýrt í reglunum að kirkjuheimsóknir séu leyfilegar en það má ekki fara fram trúarinnræting í þessum kirkjuferðum og um það erum við öll sammála, eftir því sem ég best veit,“ sagði hún.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×