Viðskipti innlent

Keyptu sér bíl fyrir afganginn af kaupverðinu

Snærós Sindradóttir skrifar
Kolbrún Soffía Arnfinnsdóttir og Jóhann Heiðar Árnason eru fædd og uppalin á höfuðborgarsvæðinu en flytja innan skamms til Þorlákshafnar.
Kolbrún Soffía Arnfinnsdóttir og Jóhann Heiðar Árnason eru fædd og uppalin á höfuðborgarsvæðinu en flytja innan skamms til Þorlákshafnar. vísir/eyþór
Jóhann Heiðar Árnason og Kolbrún Soffía Arnfinnsdóttir bíða nú eftir að fá afhenta íbúð í Þorlákshöfn. Þau eru bæði fædd og uppalin í Reykjavík og starfa í Reykjavík í dag, hann á Þjóðarbókhlöðunni og hún í Borgarholtsskóla.

„Þegar við fengum lánshæfismat þá sáum við fram á að hafa ekki efni á íbúð á höfuðborgarsvæðinu. Þær íbúðir sem við höfðum efni á voru óíbúðarhæfar. Þær eru bæði lekar og myglaðar og hreint út sagt ógeðslegar,“ segir Jóhann Heiðar.

Þeim leist vel á fyrstu íbúðina sem þau skoðuðu utan höfuðborgarsvæðisins, þriggja herbergja íbúð í Þorlákshöfn. „Við fengum hana á 12,7 milljónir. Hún var miklu flottari en íbúðir sem voru á svona þrjátíu milljónir hér þannig að þetta var engin spurning. Við bara skelltum okkur á þetta.“

Jóhann segir að vegna þess hve íbúðin var ódýr hafi þau haft efni á að kaupa sér bíl líka. „Þegar ég tek strætó úr Breiðholtinu þarf ég að vakna um hálf sjö til að vera mættur klukkan átta. Ég býst ekki við því að vakna neitt fyrr þegar ég keyri frá Þorlákshöfn. En auðvitað vill maður eiga heima hér, ég ólst upp hér og átti alltaf heima hér. Maður verður bara að vera hreinskilinn við sjálfan sig þegar maður skoðar dæmið og sér að það gengur bara ekki upp,“ segir Jóhann og bendir á að erlendis tíðkist víða að fólk búi í nærliggjandi bæjarfélögum en vinni í borginni. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×