Viðskipti innlent

Keypti þriðjungshlut í Kosmos og Kaos

Haraldur Guðmundsson skrifar
Kristján Gunnarsson og Gunnar Leó Gunnarsson skrifuðu undir kaupsamninginn ásamt Guðmundi Bjarna, meðstofnanda fyrirtækisins.
Kristján Gunnarsson og Gunnar Leó Gunnarsson skrifuðu undir kaupsamninginn ásamt Guðmundi Bjarna, meðstofnanda fyrirtækisins.
Bandaríska fyrirtækið UENO LLC, sem kemur að hönnun vefsíðna á borð við Google og Youtube, hefur keypt þriðjungshlut í íslenska vefhönnunarfyrirtækinu Kosmos & Kaos.

Fyrirtækið var stofnað fyrir fjórum árum af þeim Guðmundi Bjarna Sigurðssyni og Kristjáni Gunnarssyni. Í fréttatilkynningu þeirra um söluna segir að UENO LLC, sem er með höfuðstöðvar í San Francisco, sé eitt það eftirsóttasta á sviði vefhönnunar í heiminum.

„Fjárfestingin mun gera okkur kleift að stækka Kosmos & Kaos og fjölga bæði starfsfólki og viðskiptavinum,“ segir Kristján Gunnarsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Tólf starfsmenn eru á skrifstofum fyrirtækisins í Reykjavík og Reykjanesbæ.

Í tilkynningunni segir einnig að hlutur UENO LLC geti farið upp í 50 prósent samkvæmt ákvæðum kaupsamningsins. Gunnar Leó Gunnarsson, forsvarsmaður bandaríska fyrirtækisins hér á landi, verður stjórnarformaður Kosmos & Kaos.

„Við skoðuðum nokkur íslensk fyrirtæki sem komu til greina sem fjárfestingarkostir fyrir UENO en ákváðum á endanum að kaupa í Kosmos & Kaos. Bæði leist okkur vel á þeirra listrænu nálgun og hæfni starfsfólksins og svo höfum við mjög svipaða sýn á hvernig við viljum byggja fyrirtækin okkar upp,“ segir Gunnar í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×