Menning

Kemur upp úr skúffunni

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Það er algerlega mögnuð upplifun búa til persónur og sögur sem maður hafði ekki hugmynd um að væru þarna,“ segir Sigríður Hagalín um skáldsöguna sem hún var að skrifa.
"Það er algerlega mögnuð upplifun búa til persónur og sögur sem maður hafði ekki hugmynd um að væru þarna,“ segir Sigríður Hagalín um skáldsöguna sem hún var að skrifa. Vísir/Eyþór
„Þetta var svo falleg og hátíðleg stund að ég er enn pínu meyr,“ segir Sigríður Hagalín Björnsdóttir fréttakona um þá tilfinningu að fá fyrstu bókina sína í hendur. Sú heitir Eyland og er gefin út af Benedikt, nýju forlagi Guðrúnar Vilmundardóttur.

Sigríður kveðst lengi hafa haldið verkefninu algerlega fyrir sig. „Svo leyfði ég manninum mínum að lesa handritið í sumar og hann sagði, „Sigga, þú ert búin að skrifa bók, en þú þarft faglega aðstoð.”

Þá bað ég Guðrúnu Vilmundardóttur sem þá var nýhætt hjá Bjarti að lesa, bara til að vita hvort það væri eitthver vit í þessu. Hún greip handritið og var það ánægð með það að hún bauðst til að gefa það út, og síðan hefur allt snúist upp í ótrúlegt ævintýri.“

Hugmyndin að efni bókarinnar kviknaði fyrir tíu árum að sögn Sigríðar.

„Ég bjóst alltaf við að einhver annar fengi sömu hugmynd og skrifaði um hana en svo gerðist það ekki. Hún var því búin að marinerast í höfðinu á mér í áratug og ég var búin að hugsa plottið og uppbygginguna. Svo tók ég mér þriggja mánaða frí frá síðustu áramótum og skrifaði. Það var ótrúlegt ferli, það lá við að sagan skrifaði sig sjálf. En ég bjóst ekki við að fara með hana neitt lengra.“

Plottið segirðu. Er þetta glæpasaga?

„Nei, það er helst hægt að lýsa henni sem ástar-og spennusögu með pólitísku og sagnfræðilegu ívafi. Samt skáldsaga.“

Hún kveðst aðeins hafa dreift handritinu til sinna nánustu og fengið góð viðbrögð. Það hafi reynst frelsandi.

„Bara það að leyfa ættingjum og vinum að lesa var miklu stærra skref en ég ætlaði nokkurn tíma að taka. Ég held þetta sé pínulítið eins að koma út úr skápnum – að koma svona upp úr skúffunni. Maður miklar það svo fyrir sér og heldur að það verði svo vandræðalegt og hræðilegt. Svo opnast manni bara nýjar víddir.“

Leitaðirðu eitthvað til Guðmundar Hagalín, langafa þíns, sem skrifaði fjölda bóka á sinni tíð?

„Ég veit það ekki. Kannski liggja einhverjir þræðir þarna á milli. Það er algerlega mögnuð upplifun búa til persónur og sögur sem maður hafði ekki hugmynd um að væru þarna. Þó ég vinni við að skrifa fréttir og það hafi hjálpað mér við að koma textanum frá mér þá hefur skáldskapur ekki verið hluti af starfinu til þessa.“

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 29. október 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×