Erlent

Karlmaður stunginn til bana í Svíþjóð

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Einn lést og þrír særðust í átökunum.
Einn lést og þrír særðust í átökunum. vísir/afp
Tvítugur karlmaður var stunginn til bana á heimili flóttafólks í Ljusne í Svíþjóð á laugardag eftir að til átaka kom á milli íbúa. Einn hefur verið handtekinn, grunaður um verknaðinn.

Hinn grunaði er jafnframt talinn hafa sært þrjá í átökunum og á hann yfir höfði sér ákæru fyrir tilraun til manndráps. Þá hafa þrír aðrir verið handteknir í tengslum við rannsóknina en hefur nú verið sleppt úr haldi. Þeir eru þó enn með réttarstöðu grunaðra.

Á vef Expressen segir að alls hafi fimmtán tekið þátt í slagsmálunum sem hafi verið á milli íbúa og nágranna þeirra af næstu flóttamannamiðstöð, sem hafi endað með fyrrgreindum afleiðingum.

Í síðasta mánuði var starfsmaður flóttamannaheimilis í Mölndal stunginn til bana. Fimmtán ára piltur er grunaður um verknaðinn.

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði í gær að grípa þurfi til frekari öryggisráðstafanna á heimilum flóttafólks í landinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×