Menning

Kanónur sem koma okkur á kortið

Magnús Guðmundsson skrifar
Björn Thoroddsen gítarleikari, gullnöglin Gunnar Þórðarson og Robben Ford  gítarleikari.
Björn Thoroddsen gítarleikari, gullnöglin Gunnar Þórðarson og Robben Ford gítarleikari. Visir/Pjetur
Í kvöld klukkan átta er efnt til mikillar gítarhátíðar í Háskólabíó undir heitinu Reykjavík Guitarama. Maðurinn á bak við þessa stóru tónleika og hátíð er Björn Thoroddsen gítarleikari og hann segist áður hafa staðið að sambærilegum viðburðum erlendis en nú sé loksins komið að Íslandi. „Þetta eru fyrst og fremst tónleikar í léttum dúr. Popp, rokk, kántrí, blús, djass og hreinlega allar tegundir svo fjölbreytnin er mikil en gítarinn alltaf í fronti.

Það koma til okkar stórar stjörnur utan úr heimi til þess að taka þátt í þessu með okkur og þær stærstu eru Al Di Meola og Robben Ford, stórstjörnur í amerískum gítarleik og á heimsvísu í raun og veru. Al Di Meola hefur fjórum sinnum verið kosinn besti gítarleikari í heimi og Robben Ford hefur sex sinnum verið tilnefndur til Grammy-verðlauna þannig að þetta eru kanónur sem koma okkur á gítarkortið.

En svo má nú ekki gleyma okkur hinum sem ætlum að spila en auk mín kemur Brynhildur Oddsdóttir sterk inn og svo verður með okkur Peo Alfonsi, ítalskur snillingur, og á trommum verður Jóhann Hjörleifsson og Róbert Þórhallsson á bassa.“

En Reykjavík Guitarama felur í sér meira en tónleika í kvöld þar sem í gær var Gullnöglin veitt í fyrsta sinn. „Með Gullnöglinni erum við að heiðra gítarleikara fyrir að hafa áhrif á íslenskan gítarleik. Að þessu sinni verður það Gunnar Þórðarson og er hann svo sannarlega vel að þessu kominn. Málið er að það vita allir hvað Gunni hefur gert og hvað gítarinn hefur leikið í höndunum á honum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×