Innlent

Kanínukjöt á boðstólnum hér á landi fyrir næstu jól

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Birgit býður Íslendingum upp á kanínukjöt fyrir næstu jól.
Birgit býður Íslendingum upp á kanínukjöt fyrir næstu jól.
„Ég stefni að því að senda fyrsta kanínukjötið á markað hér á landi fyrir jólin,“ segir Birgit Kositzke, kanínubóndi í Húnaþingi vestra. Hún segir kanínukjöt vera mjög ljúffengt. „Sumir segja að þetta bragðist eins og kalkúnn, en ég get ekki alveg verið sammála því. Þetta er hvítt kjöt en bragðið er einstakt,“ útskýrir Birgit.

Samhliða kanínuslátrun mun hún gefa út bækling með uppskriftum. „Kanínukjöt í sinnepssósu er ótrúlega góður réttur. Svo þykir mér kínverskur réttur; kanínukjöt með banana og rúsínum í rjómasósu vera algjört sælgæti,“ segir Birgit. Hún er frá austurhluta Þýskalands og var kanínurækt stunduð á heimili hennar í æsku. „Við steiktum kanínukjötið yfirleitt í ofni. En svo var líka oft súpa með kanínukjöti. Það er hægt að vinna mikið með kjötið og gera marga frábæra rétti.“

Bær hennar er fimm kílómetrum norðan við Hvammstanga og hefur Sláturhúsið þar fengið leyfi til að slátra kanínum frá Matvælastofnun. Hún er með um 60 kanínur í ræktun og hyggst fjölga þeim í 170. Hún ætlar að byrja smátt en vinna sig svo upp og árið 2018 hyggst hún vera komin á fullt skrið með ræktunina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×