Erlent

Játar að hafa smyglað rúmlega 20 tonnum af hassi til Noregs

Birgir Olgeirsson skrifar
Maðurinn er sagður hafa verið einn besti uppljóstrari lögreglunnar í Osló.
Maðurinn er sagður hafa verið einn besti uppljóstrari lögreglunnar í Osló. Vísir/Getty
Fjörutíu og átta ára gamall Norðmaður hefur játað að hafa smyglað um 25 tonnum af hassi til Noregs. Á vef Verdens Gang kemur fram að brot hins 48 ára gamla Gjermund Cappelen nái aftur til tíunda áratugar síðustu aldar.

Cappelen er nú fyrir dómi í Noregi en Verdens Gang segir lögregluna telja hann hafa þénað 125 milljónir norskra króna á þessari glæpastarfsemi sinni, eða sem nemur um tveimur milljörðum íslenskra króna. Lögreglan sagði einnig að það hass sem Cappelen flutti inn hafi verið mun áhrifameira en það sem venjulegt þykir.

Hann hefur haldið því fram að hann hafi notið aðstoðar reynds lögreglumanns sem heitir Eric Jensen. Jensen þessi var handtekinn í mars síðastliðnum vegna spillingamála og sat í gæsluvarðhaldi. Jensen neitar sök í málinu sem tengist Cappelen en segir hassbaróninn hafa verið einn af bestu uppljóstrurum lögreglunnar í Osló.

Málið er rekið fyrir héraðsdómstól bæjanna Asker og Bærum en dómurinn ákvað að verða við kröfu lögreglunnar um að Cappelen verði áfram í gæsluvarðhaldi til 28. ágúst. Verjandi hans gagnrýndi þessa ákvörðun og benti á að Eric Jensen gangi laus þó svo að þeir tveir séu sakaðir um jafn alvarlegan glæp.

Verdens Gang segir rannsóknina gegn Jensen enn í gang en segir lögregluna vera á lokametrum hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×