Erlent

Íslenskt fyrirtæki finnur kafbát í Svíþjóð

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Rússneskur kafbátur fannst við strendur Svíþjóðar í október árið 2014.
Rússneskur kafbátur fannst við strendur Svíþjóðar í október árið 2014.
Íslenska fyrirtækið Ixplorer og sænska fyrirtækið Ocean X team fundu í gær það sem virðist vera rússneskur kafbátur í sænskri landhelgi.

Kafbáturinn er um 20 metra langur og þrír og hálfur metri á breidd og liggur kyrr á sjávarbotni en hann fannst með aðstoð fjarstýrðra kafbáta.

Samkvæmt heimildum Dagens Nyheter er talið að báturinn sé frá fyrri heimsstyrjöldinni, eða í kringum árið 1916.

Á skrokki kafbátsins er kyrillískt letur sem bendir til þess að um sé að ræða rússneskan kafbát.

Kafbáturinn er í heilu lagi og ekki eru á honum neinar sýnilegar skemmdir. Hleri bátsins er jafnframt lokaður og því hugsanlegt að áhöfnin hafi aldrei náð að yfirgefa hann. Fyrirtækin undirbúa nú að rannsaka kafbátinn nánar.

Sænska sjóhernum hefur verið gert viðvart en myndir af kafbátnum eru nú til rannsóknar hjá hernum. Sænska ríkisstjórnin mun hvorki tjá sig um málið né aðhafast neitt fyrr en rannsókn hersins lýkur.

Ixplorer létu fyrirtækið Ocean X team hafa hnitin, sem leiddi til fundarins. Bæði fyrirtækin sérhæfa sig í rannsóknum og leit að fjársjóðum og skipsflökum á hafsbotni. 


Tengdar fréttir

Kafbáturinn sökk líklegast árið 1916

Sænskir kafarar fundu bátinn um þremur kílómetrum austur af Svíþjóð eftir að upplýsingar bárust um hnit frá íslensku fyrirtæki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×