Viðskipti innlent

Íslenskt efnahagslíf er á blússandi siglingu

Þær hagstærðir sem birtar voru í morgun benda til þess að íslenska hagkerfið sé á blússandi siglingu. Verðbólgan lækkar mikið, langtímaatvinnulausum fækkar verulega og gjaldþrotum fyrirtækja fækkar töluvert.

Verðbólgan mældist 4,6% í júlí og lækkaði hún um nær prósentustig frá fyrri mánuði. Þarna gætir þess að sumarútsölur eru hafnar en einnig varð myndarleg lækkun á flugfargjöldum og nokkur lækkun á bensíni og díselolíu.

Atvinnuleysið mældist 5,2% í júnímánuði samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar og er þar með með því minnsta í Evrópu. Athygli vekur að verulega hefur dregið úr langtímaatvinnuleysi en á öðrum ársfjórðungi ársins hafði langtímaatvinnulausum fækkað um 1.100 manns frá sama tímabili í fyrra þegar þeir voru 3.900 talsins. Hér er átt við þá sem verið hafa án vinnu í ár eða lengur. Hlutfall þeirra af atvinnulausum í heild minnkaði úr tæpum 25% og niður í rúmlega 21%

Töluverð fækkun varð á fjölda gjaldþrota fyrirtækja í júní miðað við sama mánuð í fyrra. Þannig varð 51 fyrirtæki gjaldþrota í júní s.l. miðað við 137 fyrirtæki í sama mánuði í fyrra þannig að 86 færri gjaldþrot urðu í þessum mánuði í ár. Á fyrstu sex mánuðum ársins hefur gjaldþrotum fækkað um 32% miðað við sama tímabil í fyrra.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×