Innlent

Íslendingar gripnir í fíkniefnarassíu á Spáni

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Um 6.000 marijúanaplöntur voru í ræktun í húsinu.
Um 6.000 marijúanaplöntur voru í ræktun í húsinu. Mynd/Guardia Civil
Fjórir Íslendingar eru nú í haldi lögreglu á Spáni í tengslum við mjög umfangsmikla kannabisræktun í yfirgefinni vöruskemmu í iðnaðarhverfi í bænum Molina de Segura á Spáni.

Samkvæmt spænskum fjölmiðlum er um að ræða eitthvert háþróaðasta kannabisgróðurhús sem fundist hefur í Evrópu, metið á um 140 milljónir íslenskra króna.

Talið er að einn mannanna, 58 ára Íslendingur, hafi verið skráður eigandi fyrirtækis sem hagnaður af framleiðslunni rann til. Þá leigði hann húsnæðið sem framleiðslan fór fram í.

Í frétt La Opinión de Murcia um málið kemur fram að 58 ára Íslendingur og sjö Hollendingar á aldrinum 27 til 43 ára hafi verið handteknir grunaðir um fíkniefnasmygl og skipulagða glæpastarfsemi.

Þá segir í miðlinum La Verdad að tveir íslenskir ríkisborgarar hafi verið handteknir á leið úr landi. Jafnframt hafi fleiri meðlimir glæpasamtakanna verið handteknir á flugvellinum í Alicante á leið til Íslands.

Rannsókn lögreglu á Spáni hófst þegar fyrirtæki í nágrenninu tilkynntu um einkennileg frávik í rafmagnslínum í iðnaðarhverfinu. Við nánari skoðun kom í ljós að rafmagni var veitt í stóra vöruskemmu sem borgaði enga rafmagnsreikninga. Í skemmunni fundust sex þúsund kannabisplöntur sem lögreglan lagði hald á.

Talið er að framleiðslan hafi verið hluti af starfsemi umfangsmikils smyglhrings, sem hafi flutt tugi tonna af marijúana til Hollands í hverjum mánuði. Götuvirði efnanna, sem send voru á markað í hverjum mánuði, nemur um þrjátíu milljörðum íslenskra króna.

Rannsókn lögreglu hefur leitt í ljós að önnur verksmiðja var í bígerð í vöruhúsi í Alicante-héraði.

Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir að ráðuneytið hafi ekki fengið upplýsingar um málið. „Það hefur ekki verið beðið um aðstoð frá okkur,“ segir Urður.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins teygir rannsóknin sig ekki hingað til lands og hafa lögregluyfirvöld á Íslandi ekki verið beðin um að aðstoða við rannsókn málsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×