Innlent

Ísland ekki lengur sagt umsóknarríki á heimasíðu ESB

Atli Ísleifsson skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. Vísir/GVA/Getty
Ísland er ekki lengur sagt umsóknarríki sambandsins á heimasíðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Á upplýsingasíðu um umsóknarríki og möguleg umsóknarríki má sjá að Ísland hafi verið fjarlægt af listanum. Albanía, Makedónía, Svartfjallaland, Serbía og Tyrkland eru á listanum yfir umsóknarríki, auk þess að Bosnía og Kósóvó eru flokkuð sem „möguleg umsóknarríki“.

Á sérstakri undirsíðu um Ísland segir um stöðu aðildarumsóknar landsins: „Aðildarviðræður hófust í júlí 2010, en íslensk stjórnvöld gerðu hlé á viðræðum í maí 2013.“ Áður stóð einnig að Ísland væri „umsóknarríki“.

Ísland er þó enn með eigin undirsíðu á heimasíðu framkvæmdastjórnarinnar um stækkunarmál, ólíkt til dæmis Noregi.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra barst svar við bréfi sínu til Edgar Rinkevics, utanríkisráðherra Lettlands sem nú gegnir formennsku í ráðherraráði ESB í lok aprílmálaðar. Í bréfi Gunnars Braga, sem mikið var tekist á um á sínum tíma, var óskað eftir því að Ísland teldist ekki lengur umsóknarríki að sambandinu og að verklag sambandsins yrði lagað að því.

Í svari Rinkevics, sem lesa má í heild sinni hér, sagði að ráðherraráðið hafi vandlega íhugað bréf Gunnars og að þessi afstaða ríkisstjórnar Íslands sé tekin til greina. Í ljósi þessa muni ráðið íhuga ákveðnar praktískar breytingar á verklagi sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×