Erlent

ISIS sagðir hafa rænt 500 drengjum í Írak

Samúel Karl Ólason skrifar
Úr myndbandi frá ISIS sem birt var fyrr á árinu. Myndbandið er sagt sýna unga drengi í þjálfunarbúðum.
Úr myndbandi frá ISIS sem birt var fyrr á árinu. Myndbandið er sagt sýna unga drengi í þjálfunarbúðum.
Allt að 500 ungum drengjum hefur verið rænt af Íslamska ríkinu í Írak samkvæmt Embættismönnum þar í landi. 400 drengjum var rænt úr fjórum bæjum í Anbar héraði og hundrað Diyala héraði. Drengjunum var rænt úr fjórum bæjum í síðustu viku og Írakar óttast að þeir verði notaðir í átökum eða sjálfsmorðsárásum.

Íslamska ríkið hefur áður birt myndbönd sem þeir segja að séu úr þjálfunarbúðum „Unga Kalífadæmisins“. Þar að auki hafa börn verið látin taka fanga samtakanna af lífi í myndböndum sem birt hafa verið á netinu.

Embættismenn í Anbar héraði segja að búið sé að flytja drengina til þjálfunarbúða ISIS í Sýrlandi og Írak. Lögreglustjórinn í Diyala héraði segir að samtökin muni heilaþvo þá drengi og nota þá til sjálfsmorðsárása. Þetta kemur fram á vef Independent.

Sameinuðu þjóðirnar birtu í fyrra skýrslu þar sem haldið var fram að ISIS ræki þjálfunarbúðir fyrir börn. Þar væru þau þjálfuð til hernaðar og sjálfsmorðsárása. Þar á meðal voru þroskaskert börn Jadsída sem ISIS rændi notuð til sjálfsmorðsárása.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×