Viðskipti innlent

IKEA lækkar verð um 10%

Haraldur Guðmundsson skrifar
IKEA hefur lækkað vöruverð sitt á hverju ári síðustu fjögur ár.
IKEA hefur lækkað vöruverð sitt á hverju ári síðustu fjögur ár. Vísir/HAG
IKEA á Íslandi hefur lækkað allt verð á húsbúnaði í versluninni um tíu prósent að meðaltali. Sumar vörur lækka minna og aðrar meira. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. 

Samkvæmt tilkynningunni veita stöðugleiki og styrking krónunnar tækifæri til verðlækkana. Þetta sé í annað sinn sem verð eru lækkuð í versluninni síðan í byrjun september síðastliðnum. Öll verð séu því mun lægri í dag en komi fram í vörulista IKEA sem gefinn var út í ágúst

„Aðstæður hafa skapast undanfarin misseri til að lækka vöruverð; stöðugleiki í efnahagsmálum, styrking krónunnar og aukin umsvif, ekki síst vegna gríðarlegrar aukningar á ferðamönnum til landsins. Styrking krónunnar heldur áfram og því hefur verið ákveðið að líta bjartsýnum augum til framtíðar og skila þessari styrkingu án tafar til viðskiptavina. Það er von forvarsmanna IKEA að verðlækkanir fyrirtækisins hafi jákvæð áhrif á áframhaldandi stöðugleika og kaupmátt landsmanna,“ segir í tilkynningunni.

„Starfsfólk vinnur nú hörðum höndum við að breyta verðum inni í verslun og er þeirri vinnu nú að mestu lokið," segir Guðný Camilla Aradóttir, markaðsfulltrúi Ikea á Íslandi, í samtali við Vísi. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×