Viðskipti innlent

Íhuga styrjueldi og kavíargerð á Flúðum

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Villt styrja getur orðið allt að sex metra löng. Eldisfiskurinn á Flúðum verður mun minni, en væntanlega alveg jafn ófrýnilegur. Halldór Sigurðsson er framkvæmdastjóri Stolt Sea Farm á Íslandi.
Villt styrja getur orðið allt að sex metra löng. Eldisfiskurinn á Flúðum verður mun minni, en væntanlega alveg jafn ófrýnilegur. Halldór Sigurðsson er framkvæmdastjóri Stolt Sea Farm á Íslandi. Vísir/Getty
Norska fyrirtækið Stolt Sea Farm hefur verið í viðræðum við sveitarstjórn Hrunamannahrepps með uppbyggingu eldisstöðvar og kavíarframleiðslu í huga. Að sögn Halldórs Sigurðssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins á Íslandi, eru einnig fleiri staðir til skoðunar, hérlendis sem erlendis.

Kavíarframleiðsla er ekki fyrir óþolinmóða en styrjan, sem hrognin koma úr, verður ekki kynþroska fyrr en eftir níu til tíu ár. „Það er engin tilviljun að kavíar er svona dýr,“ segir Halldór kankvís.

Fyrirtækið er nú þegar með eldi og framleiðslu af þessari gerð í Bandaríkjunum svo það er ekki verið að renna blint í sjóinn, segir Halldór.

Um tveggja hektara lóð þyrfti undir eldið eða um 20 þúsund fermetra.

Jón G. Valgeirsson, sveitarstjóri Hrunamannahrepps, segir þetta spennandi verkefni en þó sé ekkert fast í hendi. „Í þessu tilfelli erum við frekar í samkeppni við önnur svæði í Evrópu en önnur sveitarfélög hér,“ segir hann.

Ýmis úrlausnarefni bíða ef af verður því fiskurinn þarf vatn sem er á bilinu 20 til 25 gráðu heitt.

Styrja er nokkuð sérstakur fiskur. Hún er stærsti ferskvatnsfiskur Norður-Ameríku og getur orðið um sex metrar á lengd og rúm átta hundruð kíló að þyngd. Ekki er þó von á slíkum ferlíkjum að Flúðum því eldisfiskarnir eru töluvert minni og verða hrygnurnar á bilinu 40 til 50 kíló að sögn Halldórs.

„Í næsta mánuði fáum við svo tilraunasendingu af seiðum, eitthvað um fimm hundruð stykki,“ segir Halldór. Stolt Sea á nú þegar fiskeldisstöð fyrir senegalflúru á Reykjanesi. Þar verður tilraunin gerð með þessi styrjuseiði. 

Kavíarframleiðsla er ekki einföld. Fyrst eru hrygnurnar aldar í þrjú ár, eða þar til þær hafa náð um tíu kílóa þyngd. Þá er ómskoðunartækjum beitt til að velja þær sem líklegast verða hrognamestar. Þær eru síðan aldar í að minnsta kosti sjö ár til viðbótar. 

Til allrar hamingju er fiskurinn sjálfur nýtanlegur þó mestu verðmætin felist vissulega í hrognunum. 

Panta má þennan varning á netinu en blaðamaður sá dolluverð á bilinu 16 til 28 þúsund krónur, svo þolinmæðin virðist borga sig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×