Viðskipti innlent

Íhuga að taka Grape af markaði

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Valgarður
Ölgerðin Egill Skallagrímsson íhugar nú að taka eina af sínum elstu vörum af markaði vegna dræmrar sölu. Egils Grape fékk nýverið nýtt útlit og vilja aðstandendur nú reyna að sjá og vona hvort fleiri taki eftir litla bitra bróðurnum í hillum verslana landsins.

„Salan hefur ekki staðið undir væntingum síðustu ár og ef þetta væri einhver önnur vara hefði framleiðslu verið hætt fyrir löngu. En hún er partur af sögu Ölgerðarinnar og hér á bæ þykir okkur einfaldlega svo vænt um vöruna að við tímum ekki að láta hana frá okkur,“ segir Sigurður Valur Sigurðsson, vörumerkjastjóri hjá Ölgerðinni.

Til eru auglýsingar frá fjórða áratug síðustu aldar þar sem Ölgerðin auglýsir Appelsínu og Grape ávaxtagosdrykki. Það var svo árið 1955 sem Ölgerðin fór að framleiða gosdrykki undir vörumerkinu Egils og í kjölfarið kom Egils Appelsín í þeirri mynd sem það er þekkt í dag.

Samkvæmt tilkynningu frá Ölgerðinni segja óstaðfestar heimildir að Grape hafi komið á markað tveimur árum seinna. Það má því segja að Grape sé eins konar litli bróðir Appelsínsins.

„Þetta er hálfgerð „underdog“ saga, en Grape-ið hefur oft fallið í skuggann á Appelsín og fyrir vikið verið svolítið bitur og stefnulaus greyið. En varan á sér þó nokkra mjög dygga aðdáendur, sem drekka helst ekkert annað en Egils Grape,” segir Siguður Valur.

Þó Grape hafi átt sína spretti og komist í tísku af og til er salan nú lítil.

„Egils Grape hangir líka bókstaflega á sögulegum útivegg Ölgerðarinnar og það yrði talsverð vinna að fjarlægja hana þar af. Þessar ástæður duga samt varla lengur til þar sem salan er í sögulegu lámarki.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×