Viðskipti innlent

Íbúðalánasjóður vill auknar eiginfjárkröfur við önnur kaup

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Hús Íbúðalánasjóðs.
Hús Íbúðalánasjóðs. Mynd/Íbúðalánasjóður
Hagdeild Íbúðalánasjóðs telur fulla ástæðu til þess að auka eiginfjárkröfur þegar lána á fyrir íbúðarkaupum öðrum en þeim fyrstu. Þetta kemur fram í grein sem Guðmundur Sigfinnsson, hagfræðingur hjá deildinni, skrifar á vef sjóðsins.

Kemur þar fram að norsk yfirvöld hafi nýlega gert þessa tímabundnu breytingu á reglugerð um fasteignalán. Var það gert til að bregðast við auknum einkennum fasteignabólu þar í landi, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Tók sú breyting gildi þann 1. janúar síðastliðinn og rennur hún út þann 30. júní á næsta ári.

Guðmundur Sigfinnsson, hagfræðingur.
Í grein sinni tekur Guðmundur fram að meðalhækkun fasteignaverðs í Ósló og nærliggjandi bæjarfélögum hafi verið 21,7 prósent á síðasta ári. Þá hafi hún verið 10,1 prósent á landinu öllu. Á Íslandi var hækkunin hins vegar um fimmtán prósent.

„Að mati hagdeildar Íbúðalánasjóðs er orðin full ástæða til að horfa til sambærilegra aðgerða og Norðmenn hafa gripið til er varðar hækkun hlutfalls eigin fjár við kaup heimila á íbúð númer tvö (eða þrjú o.s.frv.),“ segir í greininni.

Þá segir að slíkar aðgerðir myndu minnka eftirspurnarþrýsting á fasteignamarkaði og skapa aukið rými fyrir fyrstu kaupendur til að komast inn á markaðinn. 

Einnig segir í greininni að með sambærilegum aðgerðum og Norðmenn hafa gripið til myndu fjársterkir aðilar sem nú þegar eiga fasteignir eiga erfiðara með að eignast fleiri. Það gæti aukið framboð fyrir fyrstu kaupendur. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×