Innlent

Hver er Lilja Alfreðsdóttir?

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Lilja var í sérfræðingahópi forsætisráðherra um skuldaleiðréttingu og vann jafnframt náið með framkvæmdahópi um afnám gjaldeyrishafta. Myndin var tekin á blaðamannafundi vegna afnáms hafta í júní 2015.
Lilja var í sérfræðingahópi forsætisráðherra um skuldaleiðréttingu og vann jafnframt náið með framkvæmdahópi um afnám gjaldeyrishafta. Myndin var tekin á blaðamannafundi vegna afnáms hafta í júní 2015. vísir/gva
Lilja Dögg Alfreðsdóttir er ráðherraefni Framsóknarflokksins að tillögu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins og fráfarandi forsætisráðherra. Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi á Alþingi í dag.

Lilja er alþjóðahagfræðingur að mennt. Hún hefur undanfarin ár starfað sem aðstoðarframkvæmdastjóri á skrifstofu seðlabankastjóra og alþjóðasamskipta í Seðlabanka Íslands. Þá var hún ráðin tímabundið sem verkefnisstjóri í forsætisráðuneytinu, eða frá 2014 til 2015.

Lilja hefur unnið í Seðlabanka Íslands frá árinu 2001 og starfað sem aðstoðarframkvæmdastjóri frá 2005. Einnig starfaði hún hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington DC frá 2010 til 2013. Hún er með meistaragráðu frá Columbia University í alþjóðahagfræði og BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands.

Hún kom til starfa í forsætisráðuneytinu á grundvelli tímabundins vistaskiptasamnings við Seðlabanka Íslands og var í leyfi frá bankanum á meðan samningurinn varði.

Lilja er fædd 4.október 1973. Hún er gift Magnúsi Óskari Hafsteinssyni, hagfræðingi í fjármálaráðuneytinu og eiga þau tvö börn. Hún hefur verið flokksbundinn framsóknarmaður um árabil og er dóttir Alfreðs Þorsteinssonar fyrrum borgarfulltrúa flokksins og hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir flokkinn.  Hún er mikið félagsmálatröll en ver frítíma sínum oftast í bústað í eigu fjölskyldunnar í Biskupstungum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×