Lífið

Hreindís komst inn í draumaskólann

Hreindís hefur nám í Guildford School of Acting í september.  Fréttablaðið/Anton
Hreindís hefur nám í Guildford School of Acting í september. Fréttablaðið/Anton

„Ég komst út og inn í skólann. Þannig að þetta gekk allt upp," segir Hreindís Ylva Garðarsdóttir Holm.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í apríl þá átti Hreindís að mæta í nokkrar prufur fyrir leiklistarskóla í Englandi. Öskufall í Eyjafjallajökli setti strik í reikninginn og setti ferðalagið í óvissu. Óvissu sem nú hefur verið eytt.

„Við komumst fimm dögum seinna," segir Hreindís. „Þetta voru fjórar prufur sem ég átti bókaðar. Það var ekki öll von úti og ég fékk nýjan tíma fyrir þá sem ég missti af."

Hreindísi gekk vel í prufunum og komst inn í tvo skóla; Central of Speech and Drama og hinn virta Guildford School of Acting. Hún valdi Guildford, en þess má geta að þokkadísin Halla Vilhjálmsdóttir útskrifaðist úr skólanum árið 2004. Guildford-skólinn var efstur á óskalista Hreindísar. En ætlaði hún alltaf að verða leikkona?

„Heldur betur. Ég er búin að stefna að þessu lengi," segir Hreindís. Hún er ekki óvön að leika; hefur tekið þátt í sýningum áhugafólks ásamt því að koma fram í uppsetningu Jesus Christ Superstar í Borgarleikhúsinu. Loks fer hún með hlutverk í kvikmyndinni Óróa eftir Baldvin Z sem er væntanleg seinna á árinu.

Hreindís segist þó ekki vera tilbúin að gera upp á milli leikhúss og kvikmynda, þegar náminu lýkur. „Það er fegurðin við Ísland að leikarar geta gert bæði. Það er minna svoleiðis erlendis," segir hún. - afb










Fleiri fréttir

Sjá meira


×