Innlent

Holtavörðuheiði lokuð vegna slyss

Stefán Árni Pálsson skrifar
Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Vísir/GVA
Holtavörðuheiði hefur verið lokað vegna umferðarslyss. Ófremdarástand skapaðist á heiðinni, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsbjörgu. Björgunarsveitir úr Borgarfirði og báðum Húnavatnssýslum hafa verið kallaðar á staðinn.

Óveður er á heiðinni og lítið skyggni en talið er að átta til tíu bílar hafi lent í árekstri. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu er aðeins vitað af einum slösuðum en meiðsli hans eru ekki talin alvarleg. Lögreglan og sjúkralið eru á vettvangi.

Ekki liggur ljóst fyrir hversu margir bílar lentu saman upphaflega en vegna slæmra veðurskilyrða jókst fjöldi bíla í árekstrinum hratt; ökumenn sáu ekki handa sinna skil og óku inn í kösina.

Björgunarsveitir munu vinna í því að leysa ástandið og færa fólk af heiðinni og verður það flutt í Staðarskála til að byrja með, að sögn Landsbjargar.

Vegagerðin bendir fólki á að fara hjáleið um Bröttubrekku og Laxárdalsheiði.

Uppfært klukkan 17.52: 

Verið er að vinna í að koma öllum niður af heiðinni og gengur sú vinna nokkuð vel. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu er dráttarbílar komnir á svæðið sem munu draga óökufæru bíla af heiðinni. Um sex bíla er að ræða.

30-40 bíla lest var á leið norður og töluverður fjöldi tepptist vegna árekstranna en búið er að koma hlutum þannig fyrir að þeir komast fram hjá slysstaðnum og  áfram norður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×