Viðskipti erlent

Hlutabréf LinkedIn í frjálsu falli

Sæunn Gísladóttir skrifar
Frá höfuðstöðvum LinkedIn.
Frá höfuðstöðvum LinkedIn. Vísir/Getty
Hlutabréf í samfélagsmiðlinum LinkedIn hrundu í viðskiptum fyrir opnun markaðar í dag og hafa nú klukkan hálf ellefu í Bandaríkjunum fallið um 38 prósent frá lokun markaða í gær. 

LinkedIn tilkynnti í gærkvöldi að sala á fyrsta ársfjórðungi ársins 2016 yrði sex prósent lægri en spáð hafði verið um. Forsvarsmenn félagsins spá 820 milljóna dollara tekjum, jafnvirði 104 milljarða íslenskra króna, en sérfræðingar höfðu spáð 868,3 milljónum dollara í tekjur, jafnvirði 110 milljarða íslenskra króna. Tekjur á hvern hlut verða því 27 prósent lægri en spáð hafði verið.

Fjórði ársfjórðungur síðasta árs reyndist ágætur hjá félaginu. Nýtt smáforrit LinkedIn kom á markaðinn og notendum fjölgaði um 19 prósent í 414 milljónir. 

Ástæða þess að hlutabréf félagsins féllu gríðarlega í morgun er talin vera að fjárfestar töldu að vöxtur fyrirtækisins myndi halda áfram að vera jafn góður á árinu 2016. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×