Viðskipti erlent

Hlutabréf bandarískra skotvopnaframleiðanda hækka í verði

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sérfræðingar rekja hækkunina til væntinga um aukna sölu á skotvopnum áður en gripið verður til hertra aðgerða varðandi aðgengi að slíkum vopnum í Bandaríkjunum.
Sérfræðingar rekja hækkunina til væntinga um aukna sölu á skotvopnum áður en gripið verður til hertra aðgerða varðandi aðgengi að slíkum vopnum í Bandaríkjunum. Vísir/Getty
Hlutabréf í bandarískum skotvopnaframleiðendum hækkuðu mikið í verði í viðskiptum dagsins á bandarískum hlutabréfamarkaði. Rekja má hækkunina til væntinga um aukna sölu á skotvopnum áður en mögulega verður gripið til hertra aðgerða varðandi aðgengi að skotvopnum.

Hlutabréf Smith & Wesson Holding Corps hækkuðu um 11,6 prósent en hlutabréf Sturm Ruger & Co inc hækkuðu um 10,7 prósent.

Fastlega má gera ráð fyrir að reynt verði að herða skotvopnalöggjöf í Bandaríkjunum í kjölfar mannskæðustu skotárásar í sögu Bandaríkjanna í Orlando um helgina þar sem minnst 50 létu lífið þegar hinn 29 ára gamli Omar Mateen lét til skarar skríða á skemmtistað LGBT-fólks, vopnaðir árásarriffli og skammbyssu.

Sérfræðingar segja að útskýra megi þessa hækkun á verði hlutabréfa skotvopnaframleiðanda vegna þess að búist er við því að sala skotvopna aukist áður en að hert löggjöf tæki gildi, yrði hún samþykkt.

Í janúar varð mikil aukning á sölu skotvopna eftir að Barack Obama tilkynnti að hann myndi nota völd sín til þess að gera það erfiðara fyrir almenna borgara að kaupa hættuleg skotvopn.

Barack Obama gagnrýndi Bandaríkjaþing harðlega í ræðu sinni í gær vegna skotárásinnar í Orlandi. Ásakaði hann þingið um aðgerðarleysi í því að herða skotvopnalöggjöfina.

Hlutabréf í Smith & Wesson Holding Corps hafa hækkað mikið á síðustu tólf mánuðum eða um 39 prósent.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×