Enski boltinn

Hjörvar Hafliða: Tölfræðin er eins og stutt pils

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ángel di María hefur ekki verið upp á sitt besta undanfarið.
Ángel di María hefur ekki verið upp á sitt besta undanfarið. vísir/getty
Ángel di María skoraði hvorki né lagði upp mark þegar Manchester United gerði 1-1 jafntefli við West Ham í lokaleik 24. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í gær.

Argentínumaðurinn, sem kostaði United tæpar 60 milljónir punda, hefur nú ekki skorað né lagt upp mark (samkvæmt opinberri tölfræði) á nýju ári.

Sjá einnig:Manchester United náði stigi á Boleyn Ground | Sjáið mörkin

Síðast skoraði Di María og lagði upp í sama leiknum gegn Everton 5. október á síðasta ári í deildinni. Eina stoðsending hans síðan þá kom í bikarleik gegn Yeovil 4. janúar.

„Menn sem bjuggust við hrúgu af mörkum frá Di María hafa greinilega ekkert kynnt sér feril hans. Hann spilaði með Real Madrid sem heldur boltanum 70 prósent í hverjum leik en skoraði bara fjögur mörk á síðasta tímabili,“ segir Hjörvar Hafliðason, sparkspekingur Stöðvar 2 Sports við Vísi.

Sky Sports veltir upp tölfræði Argentínumannsins í dag og spyr hvort það sé verið að spila honum út úr stöðu hjá Manchester United.

„Van Gaal er enn í vandræðum með að púsla þessu saman. Það eru margir sem vilja spila sömu stöðuna hjá United eins og Mata, Rooney og Di María. Di María naut sín í 4-3-3 hjá Real Madrid en það er búið að henda honum út um allan völl hjá United til að reyna að láta hann virka,“ segir Hjörvar.

„Hann hefur nú yfirleitt lagt upp mörk samt sem áður en stundum er hættulegt að horfa bara hrátt í tölfræðina. Þeir sem horfa bara á hana halda að Danny Welbeck hafi ekkert gert á móti Tottenham en hann átti fyrsta mark Arsenal.“

„Markið sem Falcao skoraði á móti Leicester kom líka eftir upphlaup og skot Di María en tölfræði segir ekkert til um það. Tölfræði er eins og stutt pils: Það sýnir eitthvað smá en ekki það sem skiptir máli,“ segir Hjörvar Hafliðason.

Hjörvar verður í sviðsljósinu í Messunni í kvöld þar sem 24. umferðin verður gerð upp á Stöð 2 Sport 2 klukkan 21.00.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×