Erlent

Hélt á líki eiginkonu sinnar á öxlunum tólf kílómetra leið

Atli Ísleifsson skrifar
Hin 42 ára Amang, eiginkona Dana Majhi, lést af völdum berkla á sjúkrahúsinu í bænum Bhawanipatna í Orissa-héraði.
Hin 42 ára Amang, eiginkona Dana Majhi, lést af völdum berkla á sjúkrahúsinu í bænum Bhawanipatna í Orissa-héraði.
Indverskur karlmaður hélt á líki eiginkonu sinnar tólf kílómetra leið eftir að sjúkrahúsið þar sem hún lést lét vera að útvega sjúkrabíl til að flytja líkið aftur til þorpsins að því er fullyrt er.

Hin 42 ára Amang, eiginkona Dana Majhi, lést af völdum berkla á sjúkrahúsinu í bænum Bhawanipatna í Orissa-héraði.

Í frétt BBC kemur fram að Dana Majhi hafi sagt þorp sitt vera í sextíu kílómetra fjarlægð frá sjúkrahúsinu og að hann hefði ekki efni á að leigja farartæki til að flytja líkið.

Forsvarsmenn sjúkrahússins neita ásökunum mannsins um að hafa hafnað því að útvegað bíl. „Konan var lögð inn á sjúkrahúsið á þriðjudag og lést síðar sama dag. Eiginmaður hennar tók lík hennar með sér án þess að upplýsa nokkurn starfsmann sjúkrahússins,“ segir talsmaður sjúkrahússins.

Majho segir hins vegar að eiginkona hans hafi dáið á þriðjudagskvöldið og að hann hefði lagt af stað með líkið á miðvikudagsmorgun, eftir að starfsmenn sjúkrahússins báðu hann um að fjarlægja líkið. Hafi hann grátbeðið starfsmenn um aðstoð, en án árangurs. Því hafi hann lagt af stað með líkið á öxlunum.

Chaula, tólf ára dóttir þeirra Dana og Amang, gekk með föður sínum þessa tólf kílómetra áður en hann var stöðvaður af vegfarendum. Sjúkrabíll kom loks á vettvang og flutti líkið aftur til heimabæjar þeirra. Líkið var svo brennt í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×