Viðskipti innlent

Hefur efasemdir um innistæðutryggingu og segir hana veita falskt öryggi

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Þrýstingur er á EES-ríkin af hálfu Evrópusambandsins að innleiða tilskipun um innistæðutryggingar í bönkum þar sem sparifjáreigendur njóta verndar að lágmarki 100 þúsund evra, jafnvirði 16 milljóna króna fari banki á hliðina. Formaður efnahags- og viðskiptanefndar leggst gegn því að tilskipunin verði lögfest því hún veiti falskt öryggi. 

Á sameiginlegum fundi efnahags- og viðskiptanefndar og utanríkismálanefndar í dag var farið yfir nýja tilskipun Evrópusambandsins nr. 2014/49 um innistæðutryggingar en þar segir í 1. mgr. 6. gr.:

„Aðildarríki skulu sjá til þess að tryggingavernd samanlagðra innstæðna hvers innstæðueiganda sé að lágmarki 100 000 evrur ef innstæðurnar verða ótiltækar.“

Tjón upp að 16 milljónum króna bætt

Þetta þýðir að hver innistæðueigandi geti að lágmarki fengið 16 milljónir króna greiddar úr innistæðutryggingarsjóði sem stjórnvöld þurfa að setja á laggirnar.

Íslenska ríkið er skuldbundið samkvæmt EES-samningnum til að innleiða þessa tilskipun í íslenska löggjöf þar sem hún snýr að fjármálaþjónustu sem fellur undir samninginn. Þrýstingur er af hálfu ESB að EES-ríkin lögfesti tilskipunina að aðalefni sínu. Frosti Sigurjónsson formaður efnahags- og viðskiptanefndar hefur miklar efasemdir um réttmæti þess.

„Þarna er verið að tala um að setja 0,8 prósent af innistæðum í sjóð en hérna er mikil samþjöppun í bankakerfinu ólíkt því sem er víða erlendis. Fáir stórir bankar, þrír stærstu bankarnir með 90 prósent af markaðnum. Það leiðir af eðli máls að það er ekki hægt að búa til tryggingakerfi á svo fábreyttum markaði,“ segir Frosti.

Fáir stórir bankar og mistökin endurtekin

Frosti er í raun að segja að tilskipunin henti ekki Íslandi því hér séu fáir stórir bankar. Falli einn þeirra muni uppsafnað fé í innistæðutryggingarsjóði aldrei duga til að verja tjónið. Verið sé að endurtaka mistökin frá því fyrir hrun.

Vanræksla á innleiðingu tilskipunar felur í sér lögformlegan fasa sem felst í því að Eftirlitsstofnun EFTA bregst þá við t.d. með samningsbrotamáli. Frosti telur rétt að Ísland reyni að semja sig frá innleiðingunni.

Ef við lögfestum ekki þessa tilskipun en hún verður í gildi á innri markaðnum, munu sparifjáreigendur ekki í fyllingu tímans, þegar gjaldeyrishöftum hefur verið aflétt, fara með innistæður sínar í evrópska banka þar sem þessi innistæðutrygging er í gildi? „Og njóta falsks öryggis í evrópskum bönkum? Málið er að þetta er falskt öryggi. Ég held í raun að þetta sé ekki raunverulegt öryggi í Evrópusambandinu heldur þegar á reynir. Til dæmis þegar Northern Rock bankinn féll í Bretlandi þá var það ekki innistæðutrygging sem dekkaði tjón sparifjáreigenda þar heldur ríkissjóður Bretlands. Þetta er umdeilt víða í heiminum. Kannski væri besta formið að menn gætu keypt sér innistæðutryggingar á frjálsum markaði ef þeir vilja hafa tryggar innistæður. Það fylgir svona kerfum kostnaður. Okkar kerfi gæti verið samkeppnishæfara ef það væri ekki einhver látbragðsleikur settur upp um innistæðutryggingar sem virka ekki í raun og veru.“

Frosti segir að íslensk stjórnvöld ættu að reyna að finna lausn á málinu til dæmis með því að fá undanþágu frá lögfestingu tilskipunarinnar.  „Við myndum aldrei virða þessa tilskipun að vettugi. Við myndum færa skýr og góð rök fyrir því að hún ætti ekki við hér á landi.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×