Viðskipti innlent

HBO í Evrópu og Walter Presents kaupa sýningarréttinn af Rétti

Sæunn Gísladóttir skrifar
Baldvin Z. leikstýrði Rétti.
Baldvin Z. leikstýrði Rétti. Vísir/Vilhelm
Spennuþáttaröðin Réttur sem Sagafilm framleiddi á síðasta ári verður sýnd á Walter Presents; VOD þjónustu Channel 4 í Bretlandi. Walter Presents er nýr möguleiki fyrir sjónvarpsáhorfendur í Bretlandi, í eigu Channel 4 og Global Series Network og er stýrt af Walter Iuzzolino. Hinn ítalski Iuzzonlino hefur starfað við sjónvarpsframleiðslu í áratugi og leggur sérstaka áherslu á að kynna sjónvarpsefni sem framleitt er annars staðar en í Bandaríkjunum og Bretlandi.  Réttur, sem hlotið hefur nafnið Case er í góðum félagsskap þáttaraða á borð við Borgen, The Killing og Broen, og fer Iuzzolino fögrum orðum um norrænt sjónvarpsefni.

Fram kemur í tilkynningu að HBO í Evrópu hefur einnig tryggt sér sýningarréttinn af Rétti og munu spennuþyrstir sjónvarpsáhorfendur í Póllandi, Tékklandi og Ungverjalandi njóta þáttanna, svo einhverjir séu nefndir, en réttur HBO nær um austanverða Evrópu.

Dreifingarfyrirtækið Red Arrow International sér um dreifingu Case á heimsvísu og Henrik Pabst, forstjóri er himinlifandi yfir sölunni til Channel 4 og HBO og segir íslenskt sjónvarpsefni eiga fullt erindi á ólíka markaði. 

Forstjóri Sagafilm, Guðný Guðjónsdóttir segir þetta jákvæða þróun; "Það er mikill áhugi á íslenskum sjónvarpsþáttaröðum erlendis um þessar mundir. Þetta sýnir enn frekar mikilvægi þess að styðja við framleiðslu á íslensku sjónvarpsefni í gegnum sjónvarpssjóðinn hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands. Hver króna sem úthlutað er í gegnum sjóðinn, dregur að sér 2 til 3 krónur erlendis frá; fjármagn sem fer í að framleiða hágæða íslenskar sjónvarpsseríur fyrir íslenska áhorfendur en hafa einnig alla möguleika á að njóta vinsælda á alþjóðlegum afþreyingarmörkuðum."

Þórhallur Gunnarsson, framkvæmdastjóri kvikmynda- og sjónvarpsframleiðslu Sagafilm segir að samningurinn ýti undir áhuga erlendra sjónvarpsstöðva og dreifingarfyrirtækja á öðrum sjónvarpsverkefnum sem Sagafilm er að þróa.  "Við erum í fjármögnun á sex nýjum sjónvarpsþáttaröðum og tveimur kvikmyndum sem fara í upptökur á næstu tveimur árum. Hinsvegar, þegar Kvikmyndasjóður er fjársveltur þurfum við að treysta meira á erlent fjármagn og þá tekur þetta eðlilega lengri tíma en við erum bjartsýn enda með frábær verkefni í höndunum."

Kjartan Þór Þórðarson, eigandi og framkvæmdastjóri Sagafilm Nordic sem staðsett er í Stokkhólmi, vinnur að sölu- og dreifingu framleiðslu Sagafilm erlendis segir þetta stóran áfanga. “Samningarnir við Walter Presents og HBO eru staðfesting á því sem við höfum alltaf haft fulla trú á og stefnt að, nefnilega að íslenskt sjónvarpsefni sé fullkomlega samkeppnishæft á öðrum mörkuðum en okkar eigin. Þetta er bara byrjunin og ég er sannfærður um að CASE á eftir að fara víða á næstunni.”

 

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×